Innlent

Minkurinn skotinn í vitna viðurvist

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Minkurinn sást við Tjörnina í morgun.
Minkurinn sást við Tjörnina í morgun.
Minkurinn sem sást á vappi við Tjörnina í Reykjavík var drepinn um hádegisbil í dag. Hann vakti talsverða athygli enda eru minkar ekki algeng sjón í höfuðborginni, en hann virtist nokkuð gæfur, að sögn vegfarenda.

Þráinn Svansson, meindýraeyðir hjá Meindýravörnum Reykjavíkurborgar, var fenginn til starfans. Sami háttur var hafður á í þessu tilfelli og öðrum sambærilegum að sögn Þráins; minkurinn var skotinn með haglabyssu.

„Við mætum bara á staðinn og hann er drepinn. Við erum með heimsins bestu byssu, Benelly, sem er haglabyssa,“ segir Þráinn.

Fólki brugðið

Vegfarandi sem fréttastofa talaði við segir að fólki hafi orðið nokkuð brugðið þegar meindýraeyðirinn dró upp skotvopnið, en hópur ferðamanna var á staðnum þegar atvikið átti sér stað.

Þráinn tekur fram að öllum hafi verið gert viðvart áður en skotinu hafi verið hleypt af og kannast ekki við að fólki hafi brugðið. Aðspurður segir hann þetta hafa tekið fljótt af - aðeins eitt skot hafi þurft til.

„Við reynum alltaf að bregðast fljótt og vel við þegar við fáum svona tilkynningar. Okkur er mikið í mun að vernda fuglalífið við Tjörnina. Þarna var þetta bara eitt skot og búið, sem betur fer.“

Höfuðborgarstofa birti myndband af minknum á Facebook-síðu sinni í dag, líkt og sjá má hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×