Innlent

Innanríkisráðuneytinu skipt upp

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Innanríkisráðuneytið verður dómsmálaráðuneyti annars vegar og samgöngu og sveitarstjórnarráðuneyti hins vegar.
Innanríkisráðuneytið verður dómsmálaráðuneyti annars vegar og samgöngu og sveitarstjórnarráðuneyti hins vegar. vísir/valli
Forseti Íslands hefur staðfest tillögur forsætisráðherra um breytt skipulag Stjórnarráðs Íslands, þess efnis að innanríkisráðuneytinu verði skipt upp. Breytingarnar fela í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Þannig fjölgar ráðuneytum úr átta í níu, og munu hin nýju ráðuneyti taka til starfa 1. maí næstkomandi. Málefnasvið hinna nýju ráðuneyta verða tilgreind með sama hætti og störfum er nú skipt á með dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að því undanskildu að málefni Þjóðskrár Íslands og Yfirfasteignamatsnefndar nú tilheyra samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Þá eru samhliða gerðar breytingar á verkaskiptingu milli forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis er lúta að framkvæmd laga um Seðlabanka Íslands. Þær fela í sér að setning reglna um reikningsskil og ársreikning bankans verður á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytis, svo og samskipti við bankann í tengslum við ákvörðun um eiginfjármarkmið hans, ráðstöfun hagnaðar og samkomulags um framkvæmd innköllunar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×