„Þessar tvær einkavæðingar fóru fram á svipuðum tíma svo mér finnst full ástæða til að líta frekar á einkavæðingu Landsbankans,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segist til dæmis ekki hafa heyrt nákvæmlega hvað ætti að rannsaka. „Ekki nema það kæmi eitthvað konkret upp sem þyrfti að rannsaka.“
Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir að ekki sé ástæða til þess að rannsaka sölu Landsbankans nema eitthvað nýtt komi fram sem gefi tilefni til rannsóknar. Nefndin komi til með að lesa rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbankans og taka ákvörðun í kjölfarið.
Vilhjálmur Bjarnason tekur í sama streng. „Hvað viltu rannsaka í Landsbankasölunni? Það er hægt að rannsaka og rannsaka en hver er spurningin í rannsókninni? Menn verða að leggja af stað með einhverja spurningu. Ég er alveg orðinn uppgefinn á þessari þvælu um að rannsaka og rannsaka.“
Björt Ólafsdóttir og Theódóra S. Þorsteinsdóttir í Bjartri framtíð sögðu afdráttarlaust að þær vildu rannsókn á Landsbankanum. Þingmenn Viðreisnar, Pawel Bartoszek og Hanna Katrín Friðriksson, tóku í sama streng og Jón Steindór og sögðust vilja rannsókn á einkavæðingu Landsbankans. Áður hefur Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra lýst sömu skoðun yfir.