Erlent

Þora ekki að birta aprílgabb þetta árið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ekkert gabb.
Ekkert gabb. Vísir/AFP
Margir helstu fjölmiðlar Noregs bregða út af vananum þetta árið og sleppa því að vera með aprílgabb. Þetta eru sjónvarpsstöðvar á borð við NRK og TV2 og dagblöð á borð við VG, Aftenposten og Bergens Tidende.

Ástæðan er sú að þessir fjölmiðlar hafa tekið þátt í herferð gegn platfréttum, „Fake News“ svonefndum, sem hafa sett strik í reikning bæði stjórnmála og fréttaflutnings í Bandaríkjunum og víðar undanfarið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kvartað mikið undan því að öflugir og virtir fjölmiðlar skrifi um sig tóman þvætting, og þá hafa samfélagmiðlar verið notaðir til að dreifa ósönnum frásögnum um áhrifafólk af ýmsu tagi.

Norsku fjölmiðlarnir segjast þess vegna óttast að trúverðugleiki þeirra bíði skaða ef þeir birti aprílgabb þetta árið eins og ekkert hafi í skorist.

Löng hefð er fyrir því í Noregi, ekki síður en hér á landi, að birta aprílgöbb. Enn geta Norðmenn ekki varist brosi þegar þeir minnast eins þekktasta aprílgabbs sögu sinnar, en það var árið 1950 þegar Aftenposten tókst að fá fjölda fólks til að bíða í röðum fyrir utan áfengisverslun ríkisins með fötur og flöskur af ýmsu tagi í von um að fá hræbillegt áfengi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×