Innlent

Skilorð fyrir að hafa hrint sambýliskonu sinni og sparkað í dóttur hennar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað á heimili mæðgnanna á Akranesi.
Atvikið átti sér stað á heimili mæðgnanna á Akranesi. vísir/gva
Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Vesturlands í síðustu viku dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa veist að þáverandi sambýliskonu sinni og ólögráða dóttur hennar á jóladag árið 2015. Honum var gert að greiða mæðgunum samtals 550 þúsund í skaðabætur.

Maðurinn var annars vegar ákærður fyrir að hafa hrint stúlkunni í gólfið og sparkað í hana liggjandi hins vegar var hann sakaður um að hafa hrint konunni í gólfið. Stúlkan hlaut mar á hægri rasskinn og konan áverka á handlegg.

Hann játaði að hafa hrint mæðgunum en sagðist ekki hafa sparkað í stúlkuna, en ekki kemur fram í dómnum hversu gömul hún er. Sagðist maðurinn telja stúlkuna hafa hlotið áverkana eftir að hafa runnið í hálku. Stúlkan sagði það þó ekki rétt.

Þá sagðist stúlkan hafa fundið fyrir miklu öryggisleysi og vanlíðan eftir atvikið, og ávallt haft það á tilfinningunni að maðurinn myndi koma aftur, en hann hafði búið hjá mæðgunum í um einn og hálfan mánuð.

Dómurinn taldi eftir framburð vitna og áverkavottorð að maðurinn hefði gerst sekur um háttsemina; að hafa hrint mæðgunum og sparkað í stúlkuna. Hann hefur ekki gerst sekur um refsiverðan verknað áður, sem hafði áhrif á ákvörðun dómsins. Var hann sem fyrr segir dæmdur í tveggja mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var honum gert að greiða stúlkunni 350 þúsund krónur í skaðabætur og konunni 200 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×