Innlent

Ábendingum um gölluð snuð hefur fjölgað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stofnunin ætlar að leggja áherslu á að skoða snuð og snuddubönd frekar. Hún bendir forráðamönnum jafnframt á að vera á varðbergi.
Stofnunin ætlar að leggja áherslu á að skoða snuð og snuddubönd frekar. Hún bendir forráðamönnum jafnframt á að vera á varðbergi.
Ábendingum um gölluð snuð og snuddubönd hefur fjölgað að undanförnu, að sögn Neytendastofu. Ekki er vitað hvort framleiðslan hafi breyst eða hvort neytendur séu duglegri við að senda inn ábendingar en stofnunin hyggst leggja áherslu á að skoða þessar vörur frekar.

Flestar tilkynningar snúa að því að litlir hlutir brotni eða detti af böndunum, að því er segir á vef Neytendastofu.

„Á síðustu 10 árum hafa 78 tilkynningar borist í RAPEX – tilkynningakerfið varðandi snuð eða snuddubönd sem geta verið hættuleg börnum. Flestar tilkynningar um snuð voru vegna köfnunarhættu vegna smárra hluta sem losna eða að loftgöt hefur vantað. Snudduböndin sem nú eru framleidd eru styttri en áður svo ekki á lengur að vera kyrkingarhætta af þeim en aftur á móti eru að koma tilkynningar um að litlir hlutir brotni eða detti af böndunum.“

Stofnunin beinir því til forráðamanna að skoða hlutina sjálfir, til dæmis með því að toga í túttuna og snuðið til að athuga hvort hún sé heil. Þá megi snuddubönd ekki vera lengri en 22 sentímetrar því að öðrum kosti sé hætta á að bandið geti vafist um hálsinn á börnum. Jafnframt fylgist þeir vel með hvort smáir hlutir geti losnað af böndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×