Erlent

Milljón manns fylgdist með gíraffakálfi koma í heiminn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Meðganga gíraffa er 15 mánaða löng.
Meðganga gíraffa er 15 mánaða löng. vísir/epa
Rúmlega milljón manns fylgdust með gíraffakálfi koma í heiminn í gær þegar dýragarður í Bandaríkjunum sýndi frá fæðingunni í beinni útsendingu. Móður og kálfi heilsast vel en almenningur mun ekki fá að hitta hinn nýborna fyrr en um miðjan maímánuð.

Kálfurinn er karlkyns en ekki hefur verið greint frá hæð hans né þyngd. Nýbornir kálfar eru hins vegar vanalega í kringum 68 kíló og 183 sentímetra. Móðirin, Apríl, er 15 ára og hefur átt fjóra kálfa. Pabbinn, Oliver, er fimm ára og fylgdist hann með á hliðarlínunni þegar hans fyrsti kálfur kom í heiminn í gær.  

Kálfurinn hefur ekki verið nefndur en til stendur að halda nafnasamkeppni á heimasíðu dýragarðsins.

Söfnunin gekk vonum framar

Útsendingin hófst í febrúar síðastliðnum og var tilgangurinn að safna fé sem mun renna til góðgerðarstarfa í þágu dýra. Söfnunin fór fram úr björtustu vonum því markmiðið var að safna 50 þúsund dollurum, en alls söfnuðust 134 þúsund dollarar, eða tæplega 15 milljónir íslenskra króna.

Enn er hægt að fylgjast með mæðginunum en óvíst er hvenær útsendingunni verður hætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×