Erlent

Trump: Stuðningur Rússa við Assad mjög slæmur fyrir mannkynið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni ekki auka þáttöku sína í hernaðarátökum í Sýrlandi þrátt fyrir efnavopnaárásir Bashir al-Assad, forseta Sýrlands. Trump gagnrýnir þó stuðning Rússa við Assad harðlega.

„Erum við að fara að taka meiri þátt í Sýrlandi? Nei,“ sagði Trump í viðtali við Fox Business News í dag.

Þá varaði hann Vladimir Putin, forseta Rússlands, við því að með stuðningi Rússa við Assad væri Putin að styðja við bakið á „sannarlega vondum manni.“

„Ég held að það sé mjög slæmt fyrir Rússland. Ég held að það sé mjög slæmt fyrir mannkynið. Ég held að það sé mjög slæmt fyrir heimsbyggðina,“ sagði Trump um stuðning Rússa við Assad.

Aukin spenna hefur færst í samskipti Rússa og Bandaríkjanna, ekki síst eftir að Trump fyrirskipaði að gerð yrði loftárás á flugvöll stjórnarliða í Sýrlandi eftir efnavopnaárás stjórnarhersins.

Putin hefur sakað andstæðinga Assad í Sýrlandi um að hafa framið efnavopnaárásina og komið sök á stjórnarherinn í von um að draga Bandaríkin enn meira inn í átökin þar í landi.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands funduðu í dag í Moskvu. Vonast Tillerson til þess að viðræður þeirra verði til þess að þýða myndist í samskiptum ríkjanna.


Tengdar fréttir

Stórveldi hyggjast ekki beita Rússa þvingunum

G7 ríkin vilja ekki nýjar viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Bandaríkin vilja koma forseta Sýrlands frá völdum. Gagnárás Bandaríkjanna á Shayrat-herflugvöllinn eyðilagði fimmtung sýrlenskra herflugvéla.

Spennuþrungið baksvið viðræðna Tillerson og Lavrov

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands hittust í dag í Moskvu. Spennan hefur magnast í samskiptum ríkjanna í aðdraganda heimsóknar Tillerson til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×