Innlent

Fjöldi fólks strand á Seyðisfirði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Um 700 manns komu til Seyðisfjarðar með Norrænu í dag.
Um 700 manns komu til Seyðisfjarðar með Norrænu í dag. vísir/gva
Mikill fjöldi fólks sem kom með Norrænu til landsins í morgun hefur verið veðurtepptur á Seyðisfirði það sem af er degi. Um 700 manns á 80 ökutækjum komu með ferjunni, og að minnsta kosti 10 rútur bíða þess að komast í skoðunarferðir.

Jónas Vilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að ferðamenn á vanbúnum bíl hafi lent í vandræðum á Fjarðarheiði í morgun, sem varð til þess að mikil umferðarteppa myndaðist. Jafnframt var mikil hálka á veginum.

„Það er núna verið að hjálpa þessum aðila sem var fremstur, þetta er stór trukkur. Aðstæður eru núna orðnar sæmilegar. Veðrið er komið niður í 13 metra á sekúndu, það er smá skafrenningur en aðstæður til að keyra eru ekki þannig skemmtilegar,“ segir Jónas í samtali við Vísi.

Þá segir hann að rútubílstjórar hafi verið upplýstir um stöðu mála og að þeir muni bíða frekari fregna. Ekki sé hægt að svara til um hvort ferðirnar verði farnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×