Hátíðin, sem fara átti fram um þessar mundir, komst í heimsfréttirnar þar sem hún var afar misheppnuð og hafa fregnir borist af hræðilegum aðstæðum á hátíðasvæðinu, en hátíðin átti að fara fram á eyju í Bahamas eyjaklasanum. Miðar á atburðinn kostuðu hundruði þúsunda króna.
Hafa gestir hátíðarinnar meðal annars líkt ástandinu á eyjunni við Hungurleikana og hafa fregnir borist af því að tjöld hafi fokið á víð og dreif og að mat hafi verið dreift með þyrlu. Þá hafi gestum verið gert kleyft að nálgast farangur sinn í gámum og gert að finna töskur sínar sjálfir í gámunum.
Skipuleggjendurnir hafa nú sent frá sér opinbera afsökunarbeiðni þar sem farið er yfir hvað fór úrskeiðis.
Ætla að skipuleggja aðra hátíð á næsta ári
Segja þeir að innviðirnir hafi ekki verið til staðar á eyjunni þar sem halda átti hátíðina og því hafi þeir í raun þurft að byggja heila „borg“. Komu þeir upp veitukerfi og leið til þess að losna við úrgang. Redduðu þeir sér sjúkrabíl frá New York og leigðu flugvélar til þess að koma mannskapnum á staðinn, alls tólf ferðir á dag frá Miami. Síðan fór að halla undir fæti.„Við héldum að við værum tilbúnir en svo komu allir,“ segir í afsökunarbeiðninni. Þar segir að skipuleggendurnir og innviðirnir á svæðinu hefðu einfaldlega ekki ráðið við þann mikla mannfjölda sem streymdi til eyjunnar.
Segja þeir að veðrið hafi leikið þá grátt og jafnvel þó að skipuleggjendurnir hafi reynt sitt besta til þess að koma til móts við alla. Það hafi hins vegar ekki gengið upp.
„Eftir því sem fleiri komu áttuðum við á okkur að við réðum ekki við ástandið,“ því hafi verið ákveðið að aflýsa hátíðinni.
Virðast þó skipuleggjendur hvergi vera bangnir eftir þessa lífsreynslu og ætla þeir sér að halda hátíðina aftur á næsta ári, en að þessu sinni í Bandaríkjunum og segjast þeir ætla að bæta reyndum sérfræðingum hátíðahaldi við teymi skipuleggjenda.
Þá munu allir gestir hátíðarinnar fá endurgreitt að fullu, sem og fá VIP-aðgang að hátíðinnii á næsta ári.