Innlent

Ósannað að hafa ekið með ferðamenn um Suðurland í leyfisleysi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn, sem ók farþegum um Suðurland áleiðis í göngu á Sólheimajökul, var sýknaður af broti gegn lögum um leigubifreiðar.
Maðurinn, sem ók farþegum um Suðurland áleiðis í göngu á Sólheimajökul, var sýknaður af broti gegn lögum um leigubifreiðar. vísir/pjetur
Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag leiðsögumann ferðaþjónustufyrirtækis sem ákærður hafði verið fyrir brot gegn lögum um leigubifreiðar. Honum var gefið að sök að hafa ekið með farþega, gegn gjaldi og án þess að hafa atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða, í nóvember í fyrra. Fyrirtækið er hins vegar með hópferðarleyfi.

Stöðvaður á leið sinni á Sólheimajökul

Leiðsögumaðurinn hafði sótt sjö farþega til Reykjavíkur og var á leið á Sólheimajökul þegar hann var stöðvaður í umferðareftirliti lögreglu við þjónustumiðstöðina á Hvolsvelli.

Fram kemur í dómnum að jöklagöngur á vegum fyrirtækisins kosti 34.990 krónur en að veittur sé 5.000 króna afsláttur komi fólk sér sjálft á staðinn. Fyrirtækið er með skráð hópferðaleyfi, ekki leyfi til aksturs leigubifreiða, en ákæruvaldið taldi að með því að rukka sérstaklega fyrir aksturinn hafi fyrirtækið brotið gegn lögum um leigubifreiðar.  

Ósannað að greitt hafi verið sérstaklega fyrir aksturinn

Því var dómurinn hins vegar ósammála og fram kemur í niðurstöðu hans að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að greitt hafi verið sérstakt gjald fyrir aksturinn. Leiðsögumaðurinn sagðist sömuleiðis ekki vita hvort farþegarnir hafi greitt sérstaklega fyrir aksturinn enda hafi hann ekki tekið við greiðslum frá þeim, þeir hafi greitt beint til fyrirtækisins.

Þá benti dómurinn á að í ákvæðum laga um leigubifreiða sé ekki afdráttarlaust bann við að ferðaþjónustufyrirtæki felli kostnað af akstri inn í heildarverð ferða á þeirra vegum. Var starfsmaðurinn þar af leiðandi sýknaður af ákærunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×