Norður-Kóreumenn hafa gagnrýnt Kínverja harðlega fyrir að biðja yfirvöld í Pyongyang um að stöðva kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins og eldflaugatilraunir. Á vef opinberrar fréttaveitu Norður-Kóreu segir að ummæli Kínverjar séu „gáleysisleg“ og þau reyni á þolinmæði ríkisins. Þar að auki segir að þau geti haft ótilgreindar en grafalvarlegar afleiðingar.
Kína hefur lengi verið helsti, ef ekki eini, bandamaður Norður-Kóreu en nú hafa yfirvöld þar stöðvað innflutning kola frá Norður-Kóreu og hafa samkvæmt frétt Washington Post beðið nágranna sína um að hætta eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunum.
Þá hafa ríkisfjölmiðlar Kína verið einkar harðorðir í garð Norður-Kóreu og hafa gagnrýnt stjórnendur þar. Þá hefur því verið haldið fram í fjölmiðlum í Kína að kjarnorkuvopn í eigu Norður-Kóreu ógni öryggi Kína.
Í gagnrýni KCNA, (Greinin heitir Commentary on DPRK-China Relations) sem er ekki einkuð embættismanni eða embætti, segir að Kínverjar óttist mögulega Bandaríkin og að þeir hafi fært sökina á vaxandi spennu á svæðinu frá Bandaríkjunum yfir á Norður-Kóreu. Kína ætti að hætta að skaprauna Norður-Kóreu og velta vöngum yfir þeim grafalvarlegu afleiðingum sem það kann að hafa.
Undarlegt þykir að Norður-Kórea skuli gagnrýna Kína með svo beinum hætti.
Í kjölfar gagnrýninnar í gær sagði Geng Shuang, talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína, að staða Kína gagnvart Norður-Kóreu væri ljós. Það væri að þróa vinasamband þjóðanna og þeir vildu vera góðir grannar.
Hins vegar væri Kína á því að engin kjarnorkuvopn ættu að vera á Kóreuskaganum og byggja ætti frið og öryggi með viðræðum.
Norður-Kóreumenn gagnrýna Kína harðlega
Samúel Karl Ólason skrifar
