Erlent

Manning: „Hér er ég“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Manning birti þessa mynd af sér í dag.
Manning birti þessa mynd af sér í dag. vísir/afp
Chelsea Manning birti í dag mynd af sér á samfélagsmiðlum, sem þó væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að um er að ræða fyrstu ljósmyndina af henni í sjö ár. Þá er þetta sömuleiðis fyrsta myndin sem birst hefur af henni frá því hún undirgekkst kynleiðréttingaferli.

„Allt í lagi. Hér er ég, allir!!“ skrifar Manning á Twitter-síðu sína. Hún birti jafnframt mynd í gær sem sýndi fyrstu spor hennar handan veggja fangelsisins.

Chelsea Manning var sleppt úr Fort Leavenworth herfangelsinu í gær en hún var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2010 fyrir að leka leynilegum gögnum til Wikileaks. Barack Obama ákvað skömmu áður en hann lét af embætti Bandaríkjaforseta að stytta dóm hennar, en hún átti að sitja inni til ársins 2045.

Gögnin sem Manning lak voru viðkvæmar hernaðarupplýsingar sem sneru að stríðsrekstri Bandaríkjamanna í Afganistan og Írak.

Transkonan Chelsea Manning bar áður nafnið Bradley og starfaði sem gagnasérfræðingur Bandaríkjahers í Írak. Hún hefur sagst hafa lekið gögnunum til að skapa umræðu um stefnu Bandaríkjastjórnar í utanríkis- og varnarmálum.

Hún skipti um nafn og hóf þá kynleiðréttingaferli í fangelsinu.

Myndin sem sjá má hér fyrir neðan er af Chelsea, rétt áður en hún fór í fangelsi árið 2010.

vísir/afp

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×