Kosningakapp án forsjár Þórlindur Kjartansson skrifar 19. maí 2017 07:00 Stjórnmálavafstur er að jafnaði mjög leiðinlegt. Þó býður það öðru hverju upp á þá óviðjafnanlegu tilfinningu að kitla í manni keppnisskapið. Kosningabarátta er nefnilega keppni þar sem andstæðingarnir eru sýnilegir og árangurinn mælanlegur—og fólk safnast saman og klappar fyrir frambjóðendum og lætur í ljós aðdáun. Það er því stundum sagt—meira í alvöru en gríni—að stjórnmál séu góður vettvangur fyrir fólk sem vill njóta aðdáunar þótt það sé ekki nógu fallegt til þess að starfa í skemmtanabransanum og ekki nógu hæfileikaríkt til að ná árangri í íþróttum. Og eins og í allri keppni þá fer forsjáin gjarnan forgörðum. Jafnvel þótt flestir stjórnmálamenn segist vilja málefnalega kosningabaráttu þá vita þeir mætavel að það skilar miklu betri árangri að móta sérstöðu í kringum stórar og einfaldar hugmyndir með fallegum slagorðum.Ókeypis kaffi Þegar ég var í menntaskóla leiddi þetta gjarnan til þess að kosningabarátta í hin ýmsu embætti fór að snúast fyrst og fremst um verðið á kaffibollanum í veitingasölunni. Eftir að frambjóðendur höfðu toppað hver annan í yfirboðum í nokkur ár var staðan orðin sú að næsta skref var einfaldlega að gefa kaffið, eða borga með því—en þegar þeim punkti var náð varð fljótlega til nýtt jafnvægi því koffínlausu nemendurnir áttuðu sig á því að þeir voru að niðurgreiða kaffisvelgina með hærra verði á ristuðum samlokum og Trópí. En sá sem býður sig fram undir þeim formerkjum að hann ætli að lækka kaffiverðið getur ekki annað en staðið við það; jafnvel þótt hann átti sig fullkomlega vel á því að loforðið hafi verið fáránlegt. Þannig virka yfirboð í allri kosningabaráttu. Í þau fjölmörgu skipti sem ég hef sjálfur tekið þátt í—og tapað—kosningum, hefur það því ævinlega verið huggun harmi gegn að þurfa ekki að standa við ævintýralegustu loforðin sem gefin voru í hita leiksins.Viðreisnarvon Þetta hlýtur að hafa verið það sem gerðist hjá Viðreisn síðasta haust þegar ákveðið var að setja á oddinn í kosningabaráttunni loforð um að færa í lög að öllum íslenskum fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn yrði gert, að viðlögðum háum dagsektum, að fara í gegnum svokallaða jafnlaunavottun. Orðið sjálft er frábærlega kosningavænt og í snarpri kosningabaráttu var enginn tími til þess að fara djúpt ofan í saumana á því hvað þetta fagurhljómandi loforð kynni að hafa í för með sér. Það mátti hins vegar gefa sér að allir þeir sem legðu út í að reyna að gagnrýna það eða ræða vitrænt um kosti og galla hugmyndarinnar myndu ekki eiga sér viðreisnar von í snörpu rifrildi. Slíkur mótþrói gæti ekki endað öðruvísi heldur en með því að efasemdafólkið liti út fyrir að vera argasta afturhald og karlrembur. Eins og kunnugt er æxluðust stjórnarmyndunarviðræður með þeim hætti að eftir þær stóð í raun ekkert eftir af kosningamálum Viðreisnar nema þetta eitt—jafnlaunavottun skyldi leidd í lög á kjörtímabilinu.Gallað og galið Margvísleg málefnaleg gagnrýni hefur komið fram um það frumvarp sem nú er allt kapp lagt á að samþykkja sem fyrst. Í fyrsta lagi hafa tölfræðingar bent á að vísindaleg athugun á fyrirliggjandi gögnum sýni ekki með óyggjandi hætti fram á að kynjabundin launamismunun réttlæti svo freklegt inngrip í rekstur fyrirtækja. Í öðru lagi hefur verið bent á að kostnaður lítilla fyrirtækja við skýrslugjöfina muni líklega hlaupa á mörg hundruðum þúsunda (auk óbeins kostnaðar sem felst í raski á daglegum rekstri fyrirtækjanna og stjórnun þeirra). Í þriðja lagi hefur verið bent á að ólíklegt sé að hægt sé að komast að nothæfum niðurstöðum, einkum í smærri fyrirtækjum, þar sem ómögulegt er að skilgreina niður á Excel-skjal framlag og verðmæti starfsmanna, sem gjarnan sinna fjölbreyttum hlutverkum. Í fjórða lagi hljóta stjórnvöld sem kenna sig við almennt frjálslyndi að velta vöngum yfir því hvort þau séu á réttri leið með því að setja í lög kröfur um svo freklegt inngrip í frjálsan markað. Sú hugmynd að stjórnvöld og staðlahöfundar séu þess umkomnir að fara yfir einstakar ákvarðanir fyrirtækjastjórnenda, og meta hvort þær séu réttar eða rangar, getur nefnilega ekki kallast annað en kommúnísk. Inngripið í rekstur fyrirtækja sem frumvarpið um jafnlaunavottun felur í sér er ekkert smámál. Hugmyndafræðin á bak við það er meingölluð og framkvæmdin sem stungið er upp á er galin. Þingmenn ættu því að hugsa sig vandlega um áður en þeir heimta að slíkar kvaðir séu lagðar á lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu. Annars er hætt við því að kosningakappið endi með eftirsjá. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórlindur Kjartansson Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Stjórnmálavafstur er að jafnaði mjög leiðinlegt. Þó býður það öðru hverju upp á þá óviðjafnanlegu tilfinningu að kitla í manni keppnisskapið. Kosningabarátta er nefnilega keppni þar sem andstæðingarnir eru sýnilegir og árangurinn mælanlegur—og fólk safnast saman og klappar fyrir frambjóðendum og lætur í ljós aðdáun. Það er því stundum sagt—meira í alvöru en gríni—að stjórnmál séu góður vettvangur fyrir fólk sem vill njóta aðdáunar þótt það sé ekki nógu fallegt til þess að starfa í skemmtanabransanum og ekki nógu hæfileikaríkt til að ná árangri í íþróttum. Og eins og í allri keppni þá fer forsjáin gjarnan forgörðum. Jafnvel þótt flestir stjórnmálamenn segist vilja málefnalega kosningabaráttu þá vita þeir mætavel að það skilar miklu betri árangri að móta sérstöðu í kringum stórar og einfaldar hugmyndir með fallegum slagorðum.Ókeypis kaffi Þegar ég var í menntaskóla leiddi þetta gjarnan til þess að kosningabarátta í hin ýmsu embætti fór að snúast fyrst og fremst um verðið á kaffibollanum í veitingasölunni. Eftir að frambjóðendur höfðu toppað hver annan í yfirboðum í nokkur ár var staðan orðin sú að næsta skref var einfaldlega að gefa kaffið, eða borga með því—en þegar þeim punkti var náð varð fljótlega til nýtt jafnvægi því koffínlausu nemendurnir áttuðu sig á því að þeir voru að niðurgreiða kaffisvelgina með hærra verði á ristuðum samlokum og Trópí. En sá sem býður sig fram undir þeim formerkjum að hann ætli að lækka kaffiverðið getur ekki annað en staðið við það; jafnvel þótt hann átti sig fullkomlega vel á því að loforðið hafi verið fáránlegt. Þannig virka yfirboð í allri kosningabaráttu. Í þau fjölmörgu skipti sem ég hef sjálfur tekið þátt í—og tapað—kosningum, hefur það því ævinlega verið huggun harmi gegn að þurfa ekki að standa við ævintýralegustu loforðin sem gefin voru í hita leiksins.Viðreisnarvon Þetta hlýtur að hafa verið það sem gerðist hjá Viðreisn síðasta haust þegar ákveðið var að setja á oddinn í kosningabaráttunni loforð um að færa í lög að öllum íslenskum fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn yrði gert, að viðlögðum háum dagsektum, að fara í gegnum svokallaða jafnlaunavottun. Orðið sjálft er frábærlega kosningavænt og í snarpri kosningabaráttu var enginn tími til þess að fara djúpt ofan í saumana á því hvað þetta fagurhljómandi loforð kynni að hafa í för með sér. Það mátti hins vegar gefa sér að allir þeir sem legðu út í að reyna að gagnrýna það eða ræða vitrænt um kosti og galla hugmyndarinnar myndu ekki eiga sér viðreisnar von í snörpu rifrildi. Slíkur mótþrói gæti ekki endað öðruvísi heldur en með því að efasemdafólkið liti út fyrir að vera argasta afturhald og karlrembur. Eins og kunnugt er æxluðust stjórnarmyndunarviðræður með þeim hætti að eftir þær stóð í raun ekkert eftir af kosningamálum Viðreisnar nema þetta eitt—jafnlaunavottun skyldi leidd í lög á kjörtímabilinu.Gallað og galið Margvísleg málefnaleg gagnrýni hefur komið fram um það frumvarp sem nú er allt kapp lagt á að samþykkja sem fyrst. Í fyrsta lagi hafa tölfræðingar bent á að vísindaleg athugun á fyrirliggjandi gögnum sýni ekki með óyggjandi hætti fram á að kynjabundin launamismunun réttlæti svo freklegt inngrip í rekstur fyrirtækja. Í öðru lagi hefur verið bent á að kostnaður lítilla fyrirtækja við skýrslugjöfina muni líklega hlaupa á mörg hundruðum þúsunda (auk óbeins kostnaðar sem felst í raski á daglegum rekstri fyrirtækjanna og stjórnun þeirra). Í þriðja lagi hefur verið bent á að ólíklegt sé að hægt sé að komast að nothæfum niðurstöðum, einkum í smærri fyrirtækjum, þar sem ómögulegt er að skilgreina niður á Excel-skjal framlag og verðmæti starfsmanna, sem gjarnan sinna fjölbreyttum hlutverkum. Í fjórða lagi hljóta stjórnvöld sem kenna sig við almennt frjálslyndi að velta vöngum yfir því hvort þau séu á réttri leið með því að setja í lög kröfur um svo freklegt inngrip í frjálsan markað. Sú hugmynd að stjórnvöld og staðlahöfundar séu þess umkomnir að fara yfir einstakar ákvarðanir fyrirtækjastjórnenda, og meta hvort þær séu réttar eða rangar, getur nefnilega ekki kallast annað en kommúnísk. Inngripið í rekstur fyrirtækja sem frumvarpið um jafnlaunavottun felur í sér er ekkert smámál. Hugmyndafræðin á bak við það er meingölluð og framkvæmdin sem stungið er upp á er galin. Þingmenn ættu því að hugsa sig vandlega um áður en þeir heimta að slíkar kvaðir séu lagðar á lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu. Annars er hætt við því að kosningakappið endi með eftirsjá.
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun