Erlent

Sautján ára piltur skotinn til bana í átökunum í Venesúela

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Forseti landsins er sakaður um einræðistilburði og fólkið vill hann frá.
Forseti landsins er sakaður um einræðistilburði og fólkið vill hann frá. vísir/afp
Þrír voru skotnir til bana í mótmælum í Venesúela í dag, þar af einn sautján ára piltur. Hinir tveir voru rúmlega þrítugir. Mótmælin hafa nú staðið yfir í sex vikur samfleytt og er fjöldi látinna kominn í fjörutíu og tvo.

Átökin þar í landi hafa verið hörð og hefur lögregla ítrekað beitt háþrýstidælum og táragasi á mótmælendur, sem hafa svarað fyrir sig með grjótkasti og bensínsprengjum. Þá eru vopn gjarnan á lofti, en mennirnir þrír sem létust í dag urðu allir fyrir byssuskoti. Pilturinn var skotinn í höfuðið.

Mótmælendur hafa komið saman á götum úti um árabil til þess að mótmæla Nicolas Maduro, forseta landsins. Hann er sakaður um að hafa valdið bæði pólitískri og efnahagslegri kreppu í landinu og sagður vanhæfur til þess að stjórna því. Sömuleiðis er hann sakaður um einræðistilburði, en Maduro hefur lýst því yfir að hann muni sitja út kjörtímabilið.

Nýjustu mótmælin brutust út þegar Maduro tilkynnti um breytingar á stjórnarskrá landsins sem kveða á um að stjórnlagaþingi verði komið á fót. Þannig verði stjórnarskráin færð úr höndum þingsins, þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta. Það reyndist hins vegar olía á eldinn og virðist ekkert lát vera á mótmælunum sem staðið hafa yfir í um fimmtíu borgum Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×