Erlent

Trump vill herða viðurlög vegna eldflaugaskotsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að viðurlög verði hert vegna eldflaugaskots Norður-Kóreumanna í gær. Hann sendi frá sér stutta yfirlýsingu þess efnis í gær. Fleiri leiðtogar hafa fordæmt elflaugaskotið.

Í yfirlýsingunni segist Trump vilja láta þessa ögrun Norður-Kóreu leiða til hertari refsinga. Framkoma þeirra sé svívirðileg og hafi gengið of langt. Þá segir hann að eldflaugaskotið hafi „verið svo skammt frá rússneskri grundu og að hann geti ekki ímyndað sér að Rússar séu sáttir.“  

Öryggisráðgjafi hans, H.R. McMaster átti símafund við yfirvöld í Japan og Suður-Kóreu vegna málsins. Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping, forseti Kína,  hafa lýst yfir áhyggjum vegna eldflaugaskotsins.

Eldflauginni var skotið á loft í grennd við Kusong, sem er norðvestan við höfuðborginna Pyongyang. Japönsk yfirvöld segja eldflaugina hafa verið í loftinu í um þrjátíu mínútur áður en hún hafnaði í Japanshafi, en þetta er fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreu síðan nýkjörinn forseti Suður-Kóreu tók við embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×