Erlent

Páfinn tekur portúgölsk börn í dýrlingatölu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frans páfi brosir til mannfjöldans úr páfabílnum eftir að hann tók tvö hirðingjabörn í dýrlingatölu í bænum Fatima í Portúgal í dag.
Frans páfi brosir til mannfjöldans úr páfabílnum eftir að hann tók tvö hirðingjabörn í dýrlingatölu í bænum Fatima í Portúgal í dag. Vísir/EPA
Frans páfi gerði tvö portúgölsk börn, systkinin Fransisco og Jacintu Marto, að dýrlingum í dag. Gríðarlegur mannfjöldi fylgdist með athöfninni sem fram fór í bænum Fatima, rétt norðan við Lissabon, höfuðborg Portúgals. BBC greinir frá.

Hundrað ár eru nú síðan María mey er sögð hafa birst börnunum er þau gættu fjár í nágrenni bæjarins.

Í fréttatilkynningu frá Vatíkaninu kom fram að um fimmhundruð þúsund manns hafi verið viðstaddir athöfnina í dag. Þá var athöfnin fjölsótt af pílagrímum sem komu langt að, til að mynda frá Kína, Venesúela og Austur-Tímor.

Frans páfi kom til Fatimu í gær. Hann ferðaðist þangað með þyrlu og keyrði svo um bæinn í „páfabílnum“ fræga. Hann flutti einnig erindi við bænavöku í kapellu, sem reist var á staðnum þar sem María Mey er sögð hafa birst börnunum.

Jacinta og Fransisco, börnin sem tekin voru í dýrlingatölu í dag, létust í inflúensufaraldi sem geisaði í Evrópu á árunum 1918 -1919. Frænka þeirra, Lucia dos Santos, hafði hin svokölluðu „leyndarmál Fatimu“ eftir frændsystkinum sínum sem kaþólska kirkjan hefur haft í hávegum síðan. Lucia verður tekin í dýrlingatölu von bráðar.

Öryggisgæsla í landinu var hert töluvert vegna heimsóknar páfans. Hann fetar í fótspor fyrirrennara sinna, Benedikts og Jóhannesar Páls, sem einnig heimsóttu bæinn í starfstíð sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×