Nýliðar Grindavíkur gerðu góða ferð í Vesturbæinn í kvöld og lögðu KR, 1-0, í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta.
Grindjánar fengu fína hjálp frá Hrafnhildi Agnarsdóttur, markverði KR, sem lét reka sig út af fyri brot á Rilany Da Silva, leikmanni Grindavíkur, eftir aðeins 20 mínútur.
Da Silva skoraði sjálf sigurmarkið í leiknum á 34. mínútu en hún fékk sendingu inn fyrir vörnina og setti boltann í netið framhjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur, varamarkverði KR.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og Grindavík með góðan sigur en nýliðarnir eru búnir að vinna tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni og eru með sex stig í fimmta sæti.
KR, sem ætlaði sér stóra hluti í sumar, er aftur á móti í bullandi vandræðum í níunda sæti deildarinnar án stiga eftir þrjár umferðir og er ekki enn þá búið að skora mark.
Upplýsingar um gang leiksins eru fengnar frá fótbolti.net.
Edda og stelpurnar í Vesturbænum stigalausar eftir tap á móti nýliðunum
Tómas Þór Þórðarson skrifar
