Erlent

Viðbúnaðarstig lækkað í Bretlandi

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti um þetta í morgun.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti um þetta í morgun. Vísir/Getty
Viðbúnaðarstig í Bretlandi hefur verið lækkað að nýju eftir að hafa verið sett á hæsta stig í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Manchester á mánudaginn síðastliðinn. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þetta í morgun eftir fund með COBRA nefndinni, sem fjallar um þjóðaröryggismál í í Bretlandi.

Samkvæmt frétt BBC um málið munu þeir hermenn sem kallaðir voru út til aðstoðar við lögreglu vera kallaðir aftur til baka á mánudag en þá er almennur frídagur í Bretlandi. 

Bresk stjórnvöld komu á þriðjudag á hæsta viðbúnaðarstigi í landinu vegna hættu á hryðjuverkum. May sagði ákvörðunina hafa verið tekna í kjölfar þess að rannsakendum hafi ekki tekist að útiloka að árásarmaðurinn, Salman Abedi, hafi verið einn að verki.

Alls ellefu einstaklingar eru nú í haldi lögreglu vegna árásarinnar sem gerð var á mánudagskvöld þegar hinn 22 ára gamli Abedi sprengdi sjálfan sig í loft upp í anddyri Manchester Arena tónleikahallarinnar með þeim afleiðingum að 22 einstaklingar létust og tugir slösuðust. Atvikið átti sér stað að loknum tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariana Grande.


Tengdar fréttir

Þúsund hermenn á götum Bretlands

Þúsund hermenn voru sendir út á götur Bretlands í dag til að standa vörð við þekkt kennileiti. Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkjahættu ríkir í landinu en sjö hafa verið handteknir vegna sprengjuárásarinnar í Manchester á mánudag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×