Erlent

Lögregla í Manchester segir rannsókninni miða vel áfram

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Öryggisgæsla hefur verið hert verulega í Manchester í kjölfar árásarinnar.
Öryggisgæsla hefur verið hert verulega í Manchester í kjölfar árásarinnar. Vísir/afp
Lögregluyfirvöld í Manchester segja að „mikilvægar handtökur“ hafi verið gerðar í tengslum við árásina í Manchester og að söfnun sönnunargagna hafi einnig skilað miklu. BBC greinir frá.



Aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar í Manchester, Mark Rowley, segir lögreglu hafa „haft hendur í hári stórs hluta“ af hryðjuverkanetinu sem árásarmaðurinn, Salman Abedi, er talinn hafa verið meðlimur í. Þá hefur farið fram endurskoðun á öryggisgæslu á meira en þrettánhundruð viðburðum í Bretlandi síðustu daga. Viðbúnaðarstig verður þó ekki lækkað í bráð.

Leit lögreglu í tengslum við árásina stendur enn yfir á tólf stöðum en lögregluþjónar á vettvangi hafa safnað fjölmörgum hlutum, sem mögulegt er að tengist sprengjugerð, til skoðunar vegna málsins.

Átta eru nú í haldi lögreglu en nú síðast í nótt var maður handtekinn í Manchester. Tíu hafa samtals verið handteknir í tengslum við árásina en tveimur hefur verið sleppt.

Salman Abedi sprengdi sjálfan sig í loft upp við Manchester Arena síðastliðið mánudagskvöld er söngkonan Ariana Grande hélt þar tónleika. Grande tilkynnti nú fyrir skömmu að hún hygðist snúa fljótlega aftur til Manchester og halda styrktartónleika fyrir fjölskyldur þeirra sem létust í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×