Erlent

Kjörinn þingmaður degi eftir að hafa ráðist á blaðamann

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gianforte er orðinn þingmaður Montanaríkis.
Gianforte er orðinn þingmaður Montanaríkis. vísir/afp
Bandaríski repúblikaninn Greg Gianforte bar sigur úr býtum í aukakosningum um laust sæti Montana-ríkis í Öldungadeild Bandaríkjaþings í gær. Gianforte var í fyrradag ákærður fyrir að hafa ráðist á breskan blaðamann blaðsins The Guardian.

Árásin átti sér stað inni á kosningaskrifstofu Gianforte þegar blaðamaðurinn, Ben Jacobs, hugðist taka við hann viðtal. Gianforte var ósáttur við spurningar Jacobs og greip um háls hans og skellti honum í gólfið. Þar er hann sagður hafa látið höggin dynja á honum.

Gianforte hefur beðist afsökunar á atvikinu en í yfirlýsingu frá framboðinu segir að blaðamaðurinn hafi byrjað slagsmálin. Því hefur hins vegar verið vísað á bug af öðrum blaðamönnum sem urðu vitni að árásinni.

„Ég gerði mistök í gærkvöldi, ég gerði eitthvað sem ég get ekki tekið til baka,“ segir Gianforte í yfirlýsingunni. „Ég er ekki stoltur af því sem gerðist. Ég hefði ekki átt að bregðast við með þessum hætti og ég biðst afsökunar.“

Þetta kom þó ekki að sök því Gianforte, sem er stuðningsmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, fór nokkuð örugglega með sigur af hólmi. Mótframbjóðandi hans, Rob Quist, hlaut 44 prósent atkvæða. Gianforte hefur verið ákærður og á yfir höfði sér allt að 500 dollara sekt, eða um 50 þúsund krónur, eða allt að sex mánaða fangelsisvist.

Hér fyrir neðan má heyra hljóðupptöku sem blaðamaðurinn tók af atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×