Sport

Max Holloway kláraði Jose Aldo

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Max Holloway í yfirburðarstöðu gegn Jose Aldo.
Max Holloway í yfirburðarstöðu gegn Jose Aldo. Vísir/Getty
UFC 212 fór fram í nótt í Brasilíu. Max Holloway sigraði Jose Aldo í aðalbardaga kvöldsins og er nú óumdeilanlegur fjaðurvigtarmeistari UFC.

Jose Aldo byrjaði bardagann vel og tók það Holloway smá tíma að detta í gang. Aldo tók 1. lotuna en Holloway gekk betur í 2. lotu. Það var svo í 3. lotu sem Holloway tók yfir bardagann.

Holloway kýldi Jose Aldo niður og fylgdi því eftir með höggum í gólfinu. Aldo reyndi eins og hann gat að komast undan Holloway en sá síðarnefndi lét höggin dynja á Aldo í gólfinu. Eftir 4:13 í 3. lotu hafði dómarinn séð nóg og stöðvaði bardagann.

Fyrir bardagann var Max Holloway bráðabirgðarmeistari UFC og Jose Aldo „alvöru meistarinn“. Beltin voru sameinuð í nótt og er Holloway því óumdeilanlegur fjaðurvigtarmeistari UFC. Þetta var 11. sigur Holloway í röð í UFC og heldur ótrúleg sigurganga hans áfram.

Það má segja að tap Jose Aldo sé ákveðinn endapunktur á drottnun hans yfir fjaðurvigtinni. Eftir að hafa verið taplaus í tíu ár hefur hann nú verið rotaður tvisvar á síðustu tveimur árum. Bestu ár hans eru að baki og hefur nýr meistari tekið við keflinu – meistari sem er sennilega ekki að fara á flakk um þyngdarflokka.

Það verður gaman að sjá næstu skref Holloway en hinn 25 ára meistari hefur sýnt stöðugar framfarir undanfarin ár. Öll önnur úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir

Fjaðurvigtin heldur áfram án Conor McGregor

UFC 212 fer fram í nótt þar sem Jose Aldo og Max Holloway mætast í aðalbardaga kvöldsins. Fjaðurvigtarbeltið verður í húfi og getur þyngdarflokkurinn komist aftur í smá jafnvægi eftir ákveðna ringulreið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×