Erlent

Ariana Grande heimsótti aðdáendur sína á sjúkrahúsi í Manchester

Atli Ísleifsson skrifar
Lily Harrison ásamt átrunaðargoðinu Ariönu Grande.
Lily Harrison ásamt átrunaðargoðinu Ariönu Grande. Lauren Thorpe
Bandaríska söngkonan Ariana Grande heimsótti í gær aðdáendur sína sem enn dvelja særðir á sjúkrahúsi í Manchester eftir hryðjuverkaárásina að loknum tónleikum Grande í Manchester þann 22. maí síðastliðinn.

Grande heimsótti óvænt börn á Konunglega barnaspítalanum í Manchester í gær, en styrktartónleikar hennar fara fram á krikketvellinum Old Trafford annað kvöld.

Í frétt BBC er haft eftir Adam Harrison að dóttur hans, Lily, hafi liðið eins og rokkstjörnu eftir að hafa hitt átrúnaðargoð sitt og hlakkaði mikið til að mæta á tónleika Grande á morgun, en hún verður útskrifuð af sjúkrahúsinu á morgun.

Alls létu 22 lífið og tugir særðust í sjálfsvígssprengjuárás Salman Abedi að tónleikunum loknum 22. maí.

Grande sneri aftur til Bretlands í gær, en fjölmargar stórstjörnur munu koma fram á styrktartónleikunum sem ganga undir nafninu One Love Manchester. Auk Grande munu meðal annars Justin Bieber, Usher, Katy Perry, Coldplay, Take That og Miley Cyrus koma fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×