Menning

Angurvær e-moll hljómur ómar um sýningarsalinn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Pallíettustúlka. Sex stúlkur munu skiptast á um hlutverkið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi í sumar.
Pallíettustúlka. Sex stúlkur munu skiptast á um hlutverkið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi í sumar.
Nú er komið að öðrum gjörningi af þremur á sýningunni Guð, hvað mér líður illa eftir Ragnar Kjartansson í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Hann nefnist Kona í e-moll og stendur frá 17. júní til 3. september í Hafnarhúsi.

Gjörningurinn felst í því að í miðjum hring úr gylltum strimlum stendur kona í pallíettukjól eins og lifandi stytta á snúningspalli.

Hún er með Fender-rafmagnsgítar um öxl, tengdan magnara, og þegar hún slær á strengina ómar e-moll hljómur um sýningarsalinn. Hljómurinn er sígild undirstaða dægurtónlistar enda liggur hann fyrirhafnarlítið í grunnstillingu hljóðfærisins. Hann er angurvær en um leið ágengur, einkum þar sem hann er endurtekinn í sífellu án tilbrigða.

„Það verða sex konur sem skipta þessu hlutverki með sér. Þær munu þurfa að taka á þolinmæðinni,“ segir Áslaug Guðrúnardóttir, kynningarstjóri Listasafnsins.

Gjörningurinn fór upphaflega fram í samtímalistasafni Detroit-borgar, MOCAD. Þar kallaðist verkið á við þá staðreynd að í borginni spruttu á sínum tíma fram margar afgerandi tónlistarstefnur 20. aldarinnar.

Aðgöngumiði á safnið gildir á gjörninginn en frítt er fyrir handhafa árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×