Menning

Óþelló fyrst íslenskra leikverka til Slóvakíu

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Gísli Örn verður meðal annars með Masterclass á hátíðinni.
Gísli Örn verður meðal annars með Masterclass á hátíðinni. Vísir/Eyþór
„Vesturporti og Þjóðleikhúsinu var boðið að fara á leiklistarhátíð í Bratislava í Slóvakíu sem er í gangi núna. Þetta er rosalega spennandi hátíð og það er gaman að segja frá því að það er orðið uppselt á sýningarnar okkar þarna – við erum að fara að sýna þetta á íslensku í aðalsalnum í þjóðleikhúsinu í Slóvakíu, sem er risastór, þannig að það er slatti af fólki að fara að horfa á þetta með texta. Gísli ætlar líka að vera með Masterclass þarna úti – það mætir fullt af fólki á það líka. Við munum svo læðast út af Grímunni, við eigum nefnilega næturflug út á föstudaginn,“ segir Nana Alfredsdóttir hjá Vesturporti en þau eru á leiðinni út til Slóvakíu með Óþelló – þar með er það í fyrsta sinn sem íslenskt leikhús er sýnt þar í landi.

Það er hátíðin Eurokontext sem stendur fyrir komu Vesturports og til þess fékk hátíðin norskan EES-styrk. Dramatúrg hátíðarinnar er Miriam Kicinová og er yfirskrift hennar fremur pólitísk – sú í ár hefur til að mynda skírskotun í slóvaska öfgaflokka.

„Þessi hátíð er mjög skemmtileg – það er sem sagt alltaf annað hvert ár leiklist og hitt árið ópera og dans. Nú er það leiklistin, en yfirskrift hátíðarinnar er í þetta sinn „menning ógnað af menningu“ [e. civilization threatened by civilization]. Á síðustu hátíð var talað um Berlínarmúrinn og hvernig við í Evrópu erum búin að brjóta niður Berlínarmúrinn en erum enn að byggja nýja veggi – hvernig sagan endurtekur sig.

Nú er verið að ræða það að það sé ekki alltaf utanaðkomandi ógn sem stefni siðmenningunni í hættu heldur sé það eitthvað innan okkar eigin siðmenningar sem geti verið ógnin – til að mynda öfgaflokkar. Það eru sextán verk sýnd á hátíðinni og þau voru öll valin með þetta í huga, þess vegna á Óþelló upp á pallborðið þarna. Síðan er fólk líka spennt fyrir því að sjá Jagó sem kvenkarakter – þetta fræga illmenni er oftast karlhlutverk þannig að það er spenna fyrir því.“

Það virðist vera meira en nóg að gera hjá Vesturporti. Hvað er svona á döfinni?

„Það er svo mikil eftirspurn eftir okkur erlendis, en við förum til Póllands í haust til dæmis – Austur-Evrópa er að kalla. Síðan erum við að sýna Í Hjarta Hróa hattar í L.A. og Ameríkutúr í kjölfarið... já og svo er það Ellý hérna heima, þannig að það er alltaf líf og fjör.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×