Þorgeir Jónsson, eigandi keiluhallarinnar, segir þetta afar sorglegt mál. Hann hafi fylgst með uppbyggingu starfseminnar fyrir tíu árum síðan og glaðst yfir hverjum nagla sem negldur var í vegg. Hann og starfsmenn hans hafa undanfarið unnið við að rýma keiluhöllina.

„Það versta við þetta, fyrir utan þessa afþreyingu sem er nánast síðasta afþreyingin í bænum, er að það var mikið íþróttastarf í kringum þetta. Það voru fimm lið að spila í Íslandsmóti og kannski það allra dapurlegasta er að það voru tveir sautján ára unglingar í landsliðinu í keilu, þannig að ef ekki verður brugðist við fljótt þá er þetta bara búið hjá þessu fólki,“ segir Þorgeir. Hann nefnir að þrjú lið muni reyna að halda áfram í Íslandsmótinu næsta vetur.
Þorgeir segir það ekki í kortunum að opna aðra keiluhöll eins og er.
„Ég hef ekkert bolmagn í það og það er svona verið að ræða þetta. Við eigum brautirnar og vélarnar en keiludeildin sem slík hefur ekkert fjármagn í dag. Það vantar bara fjármagn og skilning frá Akureyrarbæ, sem er ekki á borðinu né sýnileg. Staðan er mjög döpur í dag,“ segir Þorgeir. Hann segist þó vita að það verði einn daginn sett upp keiluhöll en það geti hins vegar orðið of seint fyrir það starf sem hafi verið núna.