Menning

Afar viðeigandi ljóðakvöld

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Skáldin Kristín Svava og K.T. Billey hafa þýtt ljóð hvor annarrar.
Skáldin Kristín Svava og K.T. Billey hafa þýtt ljóð hvor annarrar. Vísir/Anton Brink
Það er óhætt að segja að mörg af okkar skemmtilegustu ljóðskáldum ætli að koma fram,“ segir Kristín Svava Tómasdóttir um ljóðakvöldið sem haldið verður á Gauknum að Tryggvagötu 22 annað kvöld, miðvikudag, á sumarsólstöðum.

Þar koma fram auk hennar þau Anton Helgi Jónsson, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Fríða Ísberg, Kristín Eiríksdóttir, K.T. Billey, Lommi, og Þórdís Gísladóttir og kynnir verður Kristján Guðjónsson.

Aðaltilefni þessa ljóðakvölds segir Kristín Svava vera það að Vestur-Íslendingurinn, skáldið og þýðandinn Kara Billey Þórðarson, sem notar höfundarnafnið K.T. Billey, sé stödd á landinu. 

K.T. Billey dvelur í þýðendaíbúð í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins. Meðal þess sem hún hefur þýtt úr íslensku er síðasta bók Kristínar Svövu, Stormviðvörun. Hún fékk meira að segja verðlaun fyrir það verk frá American Scandinavian Foundation og til stendur að gefa bókina út í Bandaríkjunum.

„Kara er ekki Vestur-Íslendingur í þeirri merkingu að forfeðurnir hafi farið til Kanada á nítjándu öld,“ tekur Kristín Svava fram.

„Afi hennar flutti út og hún á ættingja hér á landi en ólst upp í Kanada og er líka af úkraínskum ættum. Hefur verið hér öðru hverju og er núna í mánuð. Hún þýðir bæði úr íslensku og spænsku og er ljóðskáld líka.

Ég hef þýtt fáein ljóð eftir hana svo við getum lesið hvor eftir aðra og saman annað kvöld en hún hefur ekki jafn mikla æfingu í að tala íslensku og lesa.“

Spurð hvort það sé árvisst að sumarsólstöðum sé fagnað með ljóðalestri svarar Kristín Svava: „Nei, en afar viðeigandi. Við Jón M. Loðm­fjörð, Lommi, höfum verið að halda svona ljóðakvöld á Gauknum öðru hverju undir merkjum Samtaka ungra skálda.“

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×