Erlent

Hryðjuverkaárás við Finsbury Park: Nágrannar lýsa Osborne sem „árásargjörnum“ og „undarlegum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Darren Osborne er grunaður um hryðjuverkaárás við moskur í Norður-London aðfaranótt mánudags.
Darren Osborne er grunaður um hryðjuverkaárás við moskur í Norður-London aðfaranótt mánudags. mynd/facebook
Darren Osborne, 47 ára gamall maður frá Cardiff í Wales, sem grunaður er um hryðjuverkaárás við moskur í Norður-London aðfaranótt mánudags er „árásargjarn“ og „undarlegur“ að því er nágrannar hans til fjölda ára segja. Lögreglan gerði húsleit heima hjá Osborne í gær.

Einn lést í árásinni og ellefu særðust en Osborne ók sendiferðabíl inn í hóp múslima sem voru að koma frá kvöldbænum í moskum við Finsbury Park. Eftir að hann ók inn í mannfjöldann á Osborne að hafa hrópað „Ég vil drepa alla múslima og nú hef ég gert mitt.“

Að því er fram kemur á vef Guardian á Osborne að hafa sagt 10 ára gömlum nágranna sínum, dreng sem er múslimi, að honum hafi verið hent út af bar eftir að hafa „blótað múslimum og sagt að hann ætlaði að gera einhvern óskunda.“

Osborne er fjögurra barna faðir og sendi fjölskylda hans frá sér yfirlýsingu í gær vegna árásarinnar.

„Við erum í algjöru áfalli. Þetta er ótrúlegt og við höfum ekki almennilega áttað okkur á því sem gerðist,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu mannsins. „Hann hefur bara glímt við vandamál í langan tíma. Hann er ekki kynþáttahatari.“

Lögreglan telur hins vegar að Osborne hafi tengsl við hægriöfgahópa þó ekki sé vitað mikið um þau. Þetta gefur hins vegar til kynna að árásin hafi verið hatursglæpur.

Theresa May, forsætisráðherra, sagði í gær að hatrið og illskan sem sést hefði í árásinni mætti aldrei fá að ráða.


Tengdar fréttir

Einn látinn og átta slasaðir í London

Einn er látinn og átta slasaðir eftir að maður ók sendiferðabíl inn í hóp fólks fyrir utan mosku í norðurhluta Lundúna um miðnætti í gær.

Árásarmaðurinn í London nafngreindur

Maðurinn sem grunaður er um árásina við mosku í Finsbury Park í London í gærkvöldi hefur verið nafngreindur. Samkvæmt heimildum BBC-fréttastofunnar heitir maðurinn Darren Osborne, 47 ára, og er búsettur í grennd við Cardiff í Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×