Svo innblásinn var Björn eftir lestur á grein Hjörleifs Guttormssonar, náttúrufræðings, fyrrverandi iðnaðarráðherra og fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins, sem birtist í Morgunblaðinu í gær að hann ákvað að sýna lesendum sínum áhrif lúpínunnar í hjarta höfuðborgarinnar. Sjálfur býr Björn í Háuhlíð, rétt við Öskjuhlíðina.
Skrif Hjörleifs í Morgunblaðinu koma í framhaldi af töluverðri umræðu um lúpínu eftir átak Austfirðinga í þeim efnum.

Í greininni rifjar Hjörleifur upp sögu lúpínunnar á Íslandi og segir hana hafa reynst varg í véum.
„Eftir að hafa komið sér fyrir og hafið fræmyndun dreifist hún hratt um auðnir og gróið land og gjörbreytir ásýnd þess og aðstæðum fyrir náttúrulega gróðurframvindu,“ segir Hjörleifur.
„Enn framleiðir Landgræðsla ríkisins lúpínufræ til dreifingar undir merkjum landgræðslu. Skógræktin og tengdir aðilar hafa lengi átt stóran hlut í dreifingu lúpínu um landið og með því skellt skollaeyrum við aðvörunum og augljóst vaxandi hættu. Þegar þannig er staðið að málum er skiljanlegt að almenningur sé ráðvilltur, og almenn leiðsögn og fræðsla um gróðurríkið er þess utan af skornum skammti.“
Björn er ánægður með skrif síns fyrrverandi pólitíska andstæðings en upplýsir þó á vefsíðu sinni að hann eigi góða vini sem hafi mikla trú á lúpínunni. Hún hafi reynt vel við uppgræðslu lands í þeirra eigu. Megi jafnvel segja að ævintýralegur árangur hafi náðst og gjörbreytt landgæðum til betri vegar.

Hjörleifur kallar eftir því að stefnubreyting verði hjá Landgræðslu ríkisins og plantan tekin af lista stofnunarinnar yfir æskilegar landgræðsluplöntur.
„Áframhaldandi hlýnun hérlendis ýtir enn frekar undir útbreiðslu lúpínunnar, þar sem allt miðhálendið utan jökla getur fyrr en varir orðið vettvangur hennar, sé ekki rönd við reist.“
Björn, sem búsettur er í Háuhlíð, skellti sér í framhaldinu í göngutúr um nágrenni sitt og upp í Öskjuhlíð og tók myndir af lúpínunni. Hann telur útbreiðsluna aukast á svæðinu á milli ára.
Þá birtir hann mynd af hlíðinni rétt ofan við Háuhlíð þar sem hann býr.
„Lúpínan færir sig ár eftir ár nær götunni. Trjágróðurinn þarna er allur sjálfsprottinn á undanförnum árum. Þarna var áður gróðurlaust grýtt svæði. Lúpínan fælir fólk frá að fara um svæðið og er þarna eins og illgresi.“