Sigurganga ÍBV í Pepsi-deild kvenna heldur áfram en í dag vann liðið 3-1 sigur á Val á Hásteinsvelli.
Þetta var fimmti deildarsigur ÍBV í röð og sá sjöundi í deild og bikar. Með sigrinum í dag komust Eyjakonur upp í 3. sæti deildarinnar. Valskonur eru hins vegar áfram í 5. sætinu.
Valur komst yfir á 14. mínútu þegar Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði ÍBV, skoraði sjálfsmark. Sex mínútum síðar skoraði Laufey Björnsdóttir annað sjálfsmark og staðan því orðin 1-1.
Á 57. mínútu var komið að Cloé Lacasse. Hún slapp þá í gegnum vörn Vals eftir sendingu Sóleyjar og skoraði framhjá Söndru Sigurðardóttur í markinu. Og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði hún sitt annað mark eftir mikinn sprett upp vinstri kantinn.
Cloé hefur verið óstöðvandi að undanförnu og skorað 10 mörk í síðustu sex leikjum ÍBV í deild og bikar.
Grindavík er komið langleiðina með að bjarga sér frá falli eftir 1-2 útisigur á botnliði Hauka.
Eftir tvo sigra í röð er Grindavík komið með 12 stig og er nú átta stigum frá fallsæti þegar sjö umferðir eru eftir. Haukar eru hins vegar áfram á botninum með sitt eina stig.
Marjani Hing-Glover kom Haukum yfir á 13. mínútu en Rilany Aguiar Da Silva jafnaði metin á markamínútunni, þeirri fertugustuogþriðju.
Það var svo Berglind Ósk Kristjánsdóttir sem skoraði sigurmark Grindvíkinga á 58. mínútu. Hennar fyrsta mark í sumar og það var heldur betur mikilvægt.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengar frá Fótbolta.net.
Cloé með tvennu í fimmta deildarsigri ÍBV í röð | Grindavík fjarlægist fallsætin

Tengdar fréttir

Agla María með þrennu í stórsigri Stjörnunnar
Agla María Albertsdóttir, yngsti leikmaðurinn í íslenska EM-hópnum, skoraði þrennu þegar Stjarnan rúllaði yfir KR, 1-5, í fyrsta leik 11. umferðar Pepsi-deildar kvenna í dag.