Sport

Sunna Rannveig sigraði Kelly D'Angelo

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Mjölnir/Vísir
Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann sinn þriðja bardaga í röð í nótt í Kansas. Sunna sigraði Kelly D’Angelo eftir dómaraákvörðun og átti frábæra frammistöðu.

Bardaginn var nokkuð jafn til að byrja með og skiptust þær á höggum. Báðar voru að lenda höggum en Sunna náði að stjórna Kelly upp við búrið í 1. lotu um tíma. Sunna var þó komin með blóðnasir strax í 1. lotu.

Önnur lotan var einfaldlega frábær hjá Sunnu. Hún náði glæsilegri fellu snemma í 2. lotu og leyfði Kelly ekkert að standa upp. Hún stjórnaði henni allan tímann í gólfinu, náði nokkrum fínum olnbogum og hafði algjöra yfirburði. Kelly varðist ágætlega í gólfinu og náði Sunna ekki að ógna með uppgjafartökum.

Þriðja lotan var nokkuð lík 1. lotunni þar sem þær skiptust á höggum. Kelly var hikandi við að sækja af ótta við að vera tekin niður og reyndi að beita gagnárásum. Báðar voru að ná höggum inn en Sunna var þó að hafa betur standandi. Þegar skammt var eftir af 3. lotunni náði hún annarri fellu sem innsiglaði lotuna.

Dómararnir voru allir sammála um hver hefði unnið bardagann. Þetta var sannfærandi sigur hjá Sunnu og frábær frammistaða. Kelly D'Angelo var fyrir bardagann ósigruð í MMA og hnefaleikum og var þetta því hennar fyrsta tap á bardagaferlinum.

Sigurinn var afar sannfærandi hjá Sunnu og hefur hún vaxið gríðarlega sem bardagaíþróttamaður síðan hún tók sinn fyrsta bardaga í Invicta í september. Sunna hefur unnið alla atvinnubardaga sína og er nú 3-0 sem atvinnumaður. Sunna þakkaði kærlega fyrir stuðninginn eftir bardagann og getur gengið stolt frá borði.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×