Sport

Gunnar: Þurfti bara að taka af mér tæpt kíló í baðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnari var vel fagnað er hann steig á vigtina í höllinni í Glasgow.
Gunnari var vel fagnað er hann steig á vigtina í höllinni í Glasgow. vísir/getty
Gunnar Nelson var í góðum anda eftir sjónvarpsvigtunina í SSE Hydro-höllinni áðan en íþróttadeild náði tali af honum rétt eftir vigtunina.

„Ég er bara góður og búinn að borða og drekka. Þetta var nú ekki mikið. Ég held ég hafi tekið af mér tæpt kíló í baðinu í morgun,“ segir Gunnar en vigtunin hófst klukkan níu og hann var komin upp á vigtina tuttugu mínútum síðar.

„Ég fór klukkan átta í bað, vafði mig svo inn í handklæði upp í rúmi. Svo var ég tilbúinn.“

Gunnar segir að þetta hafi verið hans þægilegasti niðurskurður til þessa á ferlinum sem segir ansi margt enda hefur hann aldrei verið í vandræðum með þennan hluta.

„Ekki spurning að þetta var sá þægilegasti. Þetta er það minnsta sem ég hef þurft að taka af mér í baðinu. Síðast fannst mér þetta auðvelt og núna var þetta enn þá auðveldara. Ég borðaði vel og það var aðeins degi fyrir vigtun sem ég fór að minnka skammtana. Á fimmtudaginn var ég bara að háma í mig Nandos.

Þó svo hafi verið nóg að gera í vikunni þá fannst Gunnari vikan líða hratt. Hann fékk frábærar mótttökur frá fólkinu í húsinu.

„Ég bjóst svo sem við því að Skotarnir myndu taka vel undir. Ég hef alltaf fengið góða tilfinningu frá Skotunum þegar ég hitti þá. Það er eins og þeir fíli þennan stíl, karakter eða eitthvað. Þeir eru líka nálægt okkur. Svipað blóð,“ segir Gunnar sposkur en hvernig verður síðasti sólarhringurinn fram að bardaga?

„Hann verður rólegur. Við förum kannski eitthvað og borðum saman. Svo verður tjillað. Ég ætla að reyna að horfa á Sunnu í nótt ef ég verð ekki orðinn of þreyttur.

Íþróttadeild 365 er í Glasgow og mun fylgjast ítarlega með öllu í kringum bardaga Gunnars. Fylgstu með á Vísi, Fréttablaðinu og í íþróttafréttum Stöðvar 2. Bardagi Gunnars verður í beinni á Stöð 2 Sport á sunnudag klukkan 19.00 en Sunna Tsunami er í beinni á miðnætti í kvöld.Hægt er að kaupa áskrift á 365.is og svo má kaupa stakan viðburð hjá Vodafone og á Oz.is.

MMA

Tengdar fréttir

Gunnar er í geggjuðu formi

Hinn írski þjálfari Gunnars Nelson, John Kavanagh, er sem fyrr á því að Gunnar muni berjast um heimsmeistarabeltið í veltivigt UFC. Hann segir að Santiago Ponzinibbio sé mjög verðugur andstæðingur en að Gunnar muni klára hann í þriðju lotu. "Gunni er sjóðheitur þessa dagana,“ segir John Kavanagh.

Gunnar átti höllina í Glasgow | Myndband

Gunnari Nelson var nánast fagnað eins og skoskri þjóðhetju á sjónvarpsvigtunin fyrir bardagakvöldið í Glasgow fór fram. Gunnar er aðalnúmerið á kvöldinu og er vinsæll hér eins og víðar á Bretlandseyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×