Good Morning America er morgunþáttur sem sýndur er á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC og nýtur mikilla vinsælda vestanhafs. Kaleo flutti lag sitt No Good í þættinum á föstudag við mikinn fögnuð viðstaddra en Jökull Júlíusson, söngvari sveitarinnar, segir mikið um að vera hjá sveitinni.

Þá eru strákarnir á flakki heimshorna á milli um þessar mundir en lagið No Good, sem flutt var í morgunþættinum, er nýjasta smáskífan af plötunni A/B, sem hefur selst afar vel.
„Svo er ferðinni heitið til Spánar strax í kvöld þar sem við erum að spila á Bennicassim tónlistarhátíðinni á morgun og þaðan til Bretlands eftir það. Mikið að gera en það er svokallað lúxusvandamál. Við spiluðum No Good í Good Morning America þar sem að það er verið að vinna þann „single“ í útvarpinu í Bandaríkjunum eins og er,“ sagði Jökull.
Kaleo hefur farið eins og stormsveipur um Norður-Ameríku undanfarin misseri en sveitin var til að mynda valin besta nýja rokkhljómsveitin á árslista Billboard í desember síðastliðnum. Þá hafa liðsmenn Kaleo komið fram í fjölmörgum sjónvarpsþáttum í bandarísku sjónvarpi, þar á meðal hjá spjallþáttastjórnendunum James Corden og Jimmy Kimmel.
Hér að neðan má sjá flutning strákanna á laginu No Good í Good Morning America síðastliðinn föstudag.
ABC Breaking News | Latest News Videos