Þýskaland og Svíþjóð tryggðu sér í kvöld sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts kvenna í fótbolta í Hollandi en þau tryggðu sér þá efstu tvö sætin í B-riðli.
Evrópumeistarar Þýskalands unnu 2-0 sigur á Rússlandi og tryggðu sér með því sigur í riðlinum.
Sænsku stelpurnar náðu öðru sætinu þrátt fyrir 3-2 tap á móti Ítalíu. Því geta þær þakkað því að Rússarnir náðu ekki í sigur á móti Þýskalandi.
Ítalir höfðu tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu og voru úr leik fyrir leikina í lokaumferðinni.
Daniela Sabatino kom Ítölum tvisvar yfir í fyrri hálfleik, fyrst á 4. mínútu og svo aftur á 37. mínútu. Lotta Schelin jafnaði metin úr vítaspyrnu á 14. mínútum en ítalska liðið var 2-1 yfir í hálfleik.
Svíarnir voru ekki lengi að jafna metin í seinni hálfleik því Stina Blackstenius jafnaði í 2-2 á 47. mínútu eftir flottan undirbúning varamannsins Fridolina Rolfö sem hafði komið inná í hálfleik.
Sænsku stelpurnar voru nálægt því að skora sigurmarkið og umrædd Stina Blackstenius átti meðal annars skalla í stöngina.
Það voru hinsvegar Ítalir sem komust yfir í þriðja sinn þegar Cristiana Girelli skoraði á fjærstönginni á 85. mínútu eftir sendingu frá Barböru Bonansea. Cristiana Girelli hafði aðeins átta mínútum áður komið inná sem varamaður fyrir Danielu Sabatino.
Þýskaland vann 2-0 sigur á Rússlandi þar sem bæði mörkin komu úr vítaspyrnum. Babett Peter skoraði úr fyrra vítinu á 10. mínútu en Dzenifer Marozsan úr því síðara á 56. mínútu.
Þýsku stelpurnar höfðu fyrir leikinn ekki tapað á móti Rússum í nítján leikjum í röð og það var ekki að fara breytast í Utrecht í kvöld.
Sænsku stelpurnar þáðu þýska aðstoð með þökkum í kvöld
