Mínímalistarnir Bergur Ebbi skrifar 21. júlí 2017 06:00 Nú veit ég ekki hvernig þú ert að lesa þennan pistil, kæri lesandi. Kannski í nýprentuðu dagblaði sem ilmar af bleki eða af tölvuskjá. Kannski af fimm tommu snjallsímaskjá. Og kannski er einhver tilkynning að laumast yfir skjáinn akkúrat núna. „New Message from Sandra Ólafsdóttir“. Og þú smellir á tilkynninguna og fyrr en varir ertu kominn í samtal við Söndru Ólafsdóttur en í samtalinu er hlekkur á grein sem inniheldur hlekk á myndband og fyrr en varir ertu að horfa á konu í Malasíu borða þurrkaðar plómur. Með öðrum orðum. Það sem hófst með þessum pistli getur endað í Malasíu á örskotsstundu. Og hafir þú einu sinni villst af leið þá er ólíklegt að þú finnir þennan pistil aftur enda er um milljónir áhugaverðra skoðana að velja og líklegast hef ég bara eina tilraun til að halda athygli þinni. Og þannig er það bara. Það er samt líklega ekkert að að því að benda fólki á að það þarf ekki að lifa lífi sínu í sífelldum athyglisbresti. Það er enginn að skylda mann til að opna Twitter sjötíu og fimm sinnum á dag og Instagram hundrað og fimmtíu sinnum. Og Sandra Ólafsdóttir verður ekki neitt sérstaklega reið þó þú opnir ekki skilaboðin frá henni samstundis því hún er sjálf með athyglisbrest og líklega í samtali við þrjá aðra á sama tíma.Netflixaðu merkingu í líf þittHér koma skilaboð sem gætu átt við um býsna marga (sjálfan mig meðtalinn): Jafnvel þó að þú drægir úr internet-notkun þinni um helming myndi það varla hafa mikil áhrif á líf þitt. Þú myndir ekki missa af svo miklu. Það mun ekki koma niður á vinnu þinni (mun líklega frekar bæta hana) og fólk mun ekki hætta að elska þig. Það eru eiginlega varla nein haldbær rök fyrir því að þurfa að skanna fréttir og uppfærslur jafn hratt og fólk virðist almennt gera. Það má færa góð rök fyrir því að stór hluti samfélagsins sé hreinlega að lifa lífi sínu vitlaust! En geymum þann punkt í augnablik. Við komum að honum aftur í lokin. Í net- og afþreyingarvafri mínu hef ég nokkrum sinnum rekist á fyrirbæri sem nefnist „The Minimalists“. Ég kalla þetta „fyrirbæri“ því ég veit varla hvernig ég get skilgreint þetta nákvæmlega. Þetta er heimasíða með allskonar góðum boðskap en rauði þráðurinn er sá að líf nútímamannsins sé yfirfullt af óþarfa: óþarfa nethangsi, óþarfa veraldlegum hlutum og óþarflega mörgum vinnustundum; og nútímamaðurinn verður ekki hamingjusamur fyrr en hann byrjar að feta leið mínímalismans. En eins og flest í nútímanum þá er „The Minimalists meira en bara heimasíða. Það eru fyrirlestrar, blogg, bækur og heimildarmyndir. Þetta er heildarkonsept. Og varla hægt að hafa neitt á móti því. Stór hluti af fróðleiknum er ókeypis svo það er ekki einu sinni hægt að saka mínímalistana um að vera hræsnarar í leit að skjótum gróða. Það má færa góð rök fyrir því að boðskapur mínímalistanna sé mjög gagnlegur. Og það er varla nein ástæða fyrir mig að gagnrýna slíkan boðskap. Ef mér líkar hann ekki, þá get ég bara sleppt því að hlusta á hann. Það eru líka góð rök.Yfirsmurða brauðsneiðinRaunar er heimurinn fullur af góðum rökum. Það sem við skoðum allan daginn á netinu eru lausnir, konsept og hugmyndir. Það eru flóttaleiðir, nýjungar og uppfærslur sem koma í veg fyrir að við festumst í einni hugmyndafræði of lengi. Því ef það gerist, þá stöðnum við. En hugmynd eins og sú sem mínímalistarnir boða með öllum sínum hlaðvörpum og Netflix-heimildarmyndum er samstundis háð sömu annmörkum um ferskleika, uppfærslur og nýjungar og gerir í raun lítið annað en að bæta enn einu konseptinu í vitund okkar. Í raun er hugmynd mínímalistanna lítið annað en ævaforn spakmæli í sífellt nýjum umbúðum. Það er ný miðlun á gamalli hugmynd. Umbúðir utan um eitthvað sem hefur alltaf verið til. Sem er soldið þversagnarkennt því ef við þráum í raun og veru mínímalisma þá væri besta ráðið að hætta að deila, hætta að dreifa boðskapnum, hætta að segja öðrum frá þeim sannleika sem við höfum fundið. Það er miðlunin sjálf sem er vandamálið. Það er miðlunin á góðum rökum, lausnum, hugmyndum og almennri snilld sem veldur því að fólk getur ekki lengur farið í göngutúr án þess að hlusta á mannbætandi hlaðvarp í leiðinni. Ef þú náðir að lesa þetta til enda þá er það gott. Því ég skal óhræddur segja að ég vil þína athygli. Ég vil hana hundrað prósent. Samt er ég ekki að segja neitt nýtt. Mér finnst bara mínar umbúðir betri en umbúðirnar hjá öllum hinum. Og ég veit að það eru hræðilega léleg rök. En samt veit ég að þau hræðilegu rök eru réttari en öll þau góðu rök sem ég gæti komið með, eins þversagnarkennt og það hljómar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór
Nú veit ég ekki hvernig þú ert að lesa þennan pistil, kæri lesandi. Kannski í nýprentuðu dagblaði sem ilmar af bleki eða af tölvuskjá. Kannski af fimm tommu snjallsímaskjá. Og kannski er einhver tilkynning að laumast yfir skjáinn akkúrat núna. „New Message from Sandra Ólafsdóttir“. Og þú smellir á tilkynninguna og fyrr en varir ertu kominn í samtal við Söndru Ólafsdóttur en í samtalinu er hlekkur á grein sem inniheldur hlekk á myndband og fyrr en varir ertu að horfa á konu í Malasíu borða þurrkaðar plómur. Með öðrum orðum. Það sem hófst með þessum pistli getur endað í Malasíu á örskotsstundu. Og hafir þú einu sinni villst af leið þá er ólíklegt að þú finnir þennan pistil aftur enda er um milljónir áhugaverðra skoðana að velja og líklegast hef ég bara eina tilraun til að halda athygli þinni. Og þannig er það bara. Það er samt líklega ekkert að að því að benda fólki á að það þarf ekki að lifa lífi sínu í sífelldum athyglisbresti. Það er enginn að skylda mann til að opna Twitter sjötíu og fimm sinnum á dag og Instagram hundrað og fimmtíu sinnum. Og Sandra Ólafsdóttir verður ekki neitt sérstaklega reið þó þú opnir ekki skilaboðin frá henni samstundis því hún er sjálf með athyglisbrest og líklega í samtali við þrjá aðra á sama tíma.Netflixaðu merkingu í líf þittHér koma skilaboð sem gætu átt við um býsna marga (sjálfan mig meðtalinn): Jafnvel þó að þú drægir úr internet-notkun þinni um helming myndi það varla hafa mikil áhrif á líf þitt. Þú myndir ekki missa af svo miklu. Það mun ekki koma niður á vinnu þinni (mun líklega frekar bæta hana) og fólk mun ekki hætta að elska þig. Það eru eiginlega varla nein haldbær rök fyrir því að þurfa að skanna fréttir og uppfærslur jafn hratt og fólk virðist almennt gera. Það má færa góð rök fyrir því að stór hluti samfélagsins sé hreinlega að lifa lífi sínu vitlaust! En geymum þann punkt í augnablik. Við komum að honum aftur í lokin. Í net- og afþreyingarvafri mínu hef ég nokkrum sinnum rekist á fyrirbæri sem nefnist „The Minimalists“. Ég kalla þetta „fyrirbæri“ því ég veit varla hvernig ég get skilgreint þetta nákvæmlega. Þetta er heimasíða með allskonar góðum boðskap en rauði þráðurinn er sá að líf nútímamannsins sé yfirfullt af óþarfa: óþarfa nethangsi, óþarfa veraldlegum hlutum og óþarflega mörgum vinnustundum; og nútímamaðurinn verður ekki hamingjusamur fyrr en hann byrjar að feta leið mínímalismans. En eins og flest í nútímanum þá er „The Minimalists meira en bara heimasíða. Það eru fyrirlestrar, blogg, bækur og heimildarmyndir. Þetta er heildarkonsept. Og varla hægt að hafa neitt á móti því. Stór hluti af fróðleiknum er ókeypis svo það er ekki einu sinni hægt að saka mínímalistana um að vera hræsnarar í leit að skjótum gróða. Það má færa góð rök fyrir því að boðskapur mínímalistanna sé mjög gagnlegur. Og það er varla nein ástæða fyrir mig að gagnrýna slíkan boðskap. Ef mér líkar hann ekki, þá get ég bara sleppt því að hlusta á hann. Það eru líka góð rök.Yfirsmurða brauðsneiðinRaunar er heimurinn fullur af góðum rökum. Það sem við skoðum allan daginn á netinu eru lausnir, konsept og hugmyndir. Það eru flóttaleiðir, nýjungar og uppfærslur sem koma í veg fyrir að við festumst í einni hugmyndafræði of lengi. Því ef það gerist, þá stöðnum við. En hugmynd eins og sú sem mínímalistarnir boða með öllum sínum hlaðvörpum og Netflix-heimildarmyndum er samstundis háð sömu annmörkum um ferskleika, uppfærslur og nýjungar og gerir í raun lítið annað en að bæta enn einu konseptinu í vitund okkar. Í raun er hugmynd mínímalistanna lítið annað en ævaforn spakmæli í sífellt nýjum umbúðum. Það er ný miðlun á gamalli hugmynd. Umbúðir utan um eitthvað sem hefur alltaf verið til. Sem er soldið þversagnarkennt því ef við þráum í raun og veru mínímalisma þá væri besta ráðið að hætta að deila, hætta að dreifa boðskapnum, hætta að segja öðrum frá þeim sannleika sem við höfum fundið. Það er miðlunin sjálf sem er vandamálið. Það er miðlunin á góðum rökum, lausnum, hugmyndum og almennri snilld sem veldur því að fólk getur ekki lengur farið í göngutúr án þess að hlusta á mannbætandi hlaðvarp í leiðinni. Ef þú náðir að lesa þetta til enda þá er það gott. Því ég skal óhræddur segja að ég vil þína athygli. Ég vil hana hundrað prósent. Samt er ég ekki að segja neitt nýtt. Mér finnst bara mínar umbúðir betri en umbúðirnar hjá öllum hinum. Og ég veit að það eru hræðilega léleg rök. En samt veit ég að þau hræðilegu rök eru réttari en öll þau góðu rök sem ég gæti komið með, eins þversagnarkennt og það hljómar.