Rannsókn sænsku lögreglunnar hefur leitt í ljós að hlutur sem fannst Höllviken á Skáni í Svíþjóð í dag er ekki líkamshluti líkt og talið var í fyrstu. SVT greinir frá.
Mögulegt var talið að hluturinn gæti tengst leitinni að sænsku blaðakonunni Kim Wall en í kvöld staðfesti lögregla að hluturinn tengdist málinu ekki.
„Hér hefur ekkert saknæmt átt sér stað og rannsókn málsins er lokið,“ sagði Åsa Emanuelsson, lögreglukona hjá sænsku lögreglunni, um fundinn og rannsókn málsins sem leiddi í ljós að ekki væri um líkamshluta að ræða.
Kaupmannahafnarlögreglan staðfesti í gær að búkur sem fannst í sjónum suður af Amager á mánudaginn hafi verið Wall og hefur leit staðið yfir að þeim líkamshlutum sem vantar á líkið.
Peter Madsen er nú grunaður um morð, eftir að hafa áður verið grunaður um manndráp.
