Erlent

Vaxandi hitabeltislægð stefnir á strendur Texas

Kjartan Kjartansson skrifar
Hitabeltislægðin Harvey safnar nú styrk yfir heitum sjó í Mexíkóflóa. Hún gæti orðið að sterkum fellibyl þegar hún gengur á land í Texas.
Hitabeltislægðin Harvey safnar nú styrk yfir heitum sjó í Mexíkóflóa. Hún gæti orðið að sterkum fellibyl þegar hún gengur á land í Texas. Vísir/AFP
Veðurfræðingar í Bandaríkjunum vara við því að hitabeltislægðin Harvey geti orðið að öflugum fellibyl þegar hún nær ströndum Texas seint á morgun. Útlit er fyrir að úrhelli fylgi storminum sem gæti staðið yfir í allt að fjóra daga.

Harvey gæti orðið fyrsti stóri fellibylurinn sem gengur á land í Bandaríkjunum í tólf ár, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post. Lægðin safnar nú kröftum yfir afar hlýjum sjó í Mexíkóflóa og gæti náð styrk 3 eða meira.

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna spáir því að Harvey verði orðinn fellibylur af styrkleikanum þrír þegar hann gengur á land. Varar hún við lífshættulegum sjávarflóðum, úrkomu og vindstyrk sums staðar við strendur Texas.

Samkvæmt skilgreiningu á vef Veðurstofu Íslands er vindhraði í fellibyljum af þeim styrk 50-67 m/s og fylgir honum sjávarstaða sem er þrír til fjórir metrar yfir meðallagi.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, lýsti yfir neyðarástandi í þrjátíu sýslum í gær. Búist er við því að sum svæði verði rýmd í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×