Erlent

Sprengingar í efnaverksmiðjunni í Houston

Kjartan Kjartansson skrifar
Vatnselgur liggur yfir aðalveginum að Arkema-efnaverksmiðjunni í Crosby, skammt frá Houston.
Vatnselgur liggur yfir aðalveginum að Arkema-efnaverksmiðjunni í Crosby, skammt frá Houston. Vísir/AFP
Tvær sprengingar hafa heyrst og svartur reykur sést stíga upp frá efnaverksmiðju í útjaðrir Houston í Texas. Fyrirtækið sem rekur verksmiðjuna hefur varað við því að hún geti sprungið eða brunnið.

Flóðin miklu af völdum fellibyljarins Harvey hafa sökkt verksmiðju fyrirtækisins Arkema og stöðvað kælikerfi þess. Án kælingarinnar ofhitna efnin sem þar er unnið með. Forsvarsmenn Arkema segja óhjákvæmilegt að verksmiðjan springi eða verði eldsvoða að bráð.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að flytja hafi þurft lögreglumann á sjúkrahús sem vann við að tryggja svæðið í kringum verksmiðjuna eftir að hann andaði að sér eiturgufum skömmu áður en sprengingarnar heyrðust.

Ertandi reykur frá eldinum

Yfirvöld hafa skipað fólki í rúmlega tveggja kílómetra radíus í kringum verksmiðjuna að yfirgefa svæðið vegna hættunnar. Verksmiðjan er 34 kílómetra fyrir utan Houston.

Verksmiðjan framleiðir lífrænt peroxíð sem er meðal annars notað í lyfjaiðnaði og byggingarefni. Efnið getur orðið hættulegt við háan hita. Flóðin slógu út rafmagni til verksmiðjunnar og vararafstöðvar urðu einnig fyrir skemmdum af völdum vatnavaxtanna.

Richard Rowe, forstjóri fyrirtækisins, sagði að svartur reykur frá sprengingum og eldi í verksmiðjunni yrði ertandi fyrir húð, augu og lungu.

Fólk var enn að yfirgefa heimili sín á Houston-svæðinu í gær vegna flóðanna.Vísir/AFP
Harvey nú talinn hitabeltislægð

Nú eru 33 sagðir látnir af völdum Harvey í austurhluta Texas. Hann er nú skilgreindur sem hitabeltislægð en var fjórða stigs fellibylur þegar hann gekk á land í Texas á föstudagskvöld.

Veður er nú orðið skaplegra í Texas en áfram er spáð úrhellisrigningu næstu þrjá dagana allt frá Lúisíana til Kentucky. Varað er við flóðum í suðausturhluta Texas og suðvesturhluta Lúisíana.


Tengdar fréttir

Hver millímetri viðheldur hörmungunum

Íslenskur veðurfræðingur útskýrir hvað hefur gert Harvey að svo öflugum stormi. Ástandið muni ekki endilega skána þó að úrkoman minnki á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×