Erlent

Segir of seint fyrir íbúa að flýja

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill vindur og rigning herjar nú þegar á íbúa Flórída.
Mikill vindur og rigning herjar nú þegar á íbúa Flórída. Vísir/AFP
Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, segir að þeir sem hafi ekki þegar flúið vegna fellibylsins Irmu eigi ekki að reyna að ferðast á vegum ríkisins. Þess í stað eigi þau að yfirgefa heimili sín og fara í næsta neyðarskýli. Um 6,3 milljónum manna, rúmlega fjórðungi íbúa Flórída, hefur verið gert að flýja undan Irmu sem áætlað er að nái landi þar í fyrramálið.

Minnst 24 eru látnir eftir ferð Irmu í Karíbahafinu.

Irma náði landi í Kúbu í gær og var fellibylurinn þá í fimmta flokki fellibylja. Nú hefur dregið verulega úr styrk Irmu og er fellibylurinn í þriðja flokki. Búist er við því að Irma muni safna krafti á ferð sinni yfir þann heita sjó sem er á milli Kúbu og Flórída.

Samkvæmt frétt BBC var Irma fyrsti fimmta flokks fellibylurinn til að ná landi í Kúbu í rúm áttatíu ár.



Veðurfræðingar höfðu áður spáð því að borgin Miami yrði í vegi Irmu, en það hefur nú breyst. Talið er að fellibylurinn fari upp vesturströnd Flórída og lendi á Tampa. Það svæði hefur ekki orðið fyrir fellibyl í nærri því heila öld, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Varað er við sterkum vindum og miklum flóðum. Þrátt fyrir að auga Irmu sé yfir Kúbu eru þegar minnst 30 þúsund íbúar Flórída án rafmangs. Þá hafa um 54 þúsund manns leitað skjóls í 320 neyðarskýlum í ríkinu.


Tengdar fréttir

Á flótta undan storminum

Fellibylurinn Irma mun skella á Flórídaskaga af fullum þunga seint í nótt og á morgun. Mikill viðbúnaður er á svæðinu og milljónir manna eru á flótta undan hamförunum. Íslensku pari var gert að yfirgefa hótelið sitt á svæðinu í dag en þau hafa þó ekki yfirgefið Orlando.

Vara við gjöreyðileggingu í Flórídaríki

Irma gekk yfir fleiri Karíbahafseyjar í gær. Bandaríkjamenn búa sig nú undir fellibylinn sem flokkast nú á fjórða stigi, ekki fimmta. Ríkisstjóri Flórída segir afar mikilvægt að fólk yfirgefi svæði sem á að rýma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×