Rannsókn lögreglunnar í Vestmannaeyjum á nauðgun og líkamsárás sem grunur leikur á að hafi verið framin í september í fyrra er á lokastigi. Rætt var við konuna sem er brotaþolinn í málinu í útlöndum og þá voru lífsýni úr fatnaði rannsökuð.
Tryggvi Ólafsson, lögreglufulltrúi í Eyjum, segist í samtali við Vísi eiga von á því að senda málið frá sér til ákærusviðs lögreglunnar í þessum mánuði sem fer þá yfir málið og metur hvort það verði sent áfram til héraðssaksóknara.
Tryggvi segir að erfitt hafi reynst að ná tali af konunni sem brotið var á þar sem hún flutti erlendis. Hann kveðst ekki vita nákvæmlega hvenær hún flutti úr landi en telur það hafa verið í kringum áramótin. Tryggvi segir það ekki rétt sem fram kom á vef RÚV í gær að lögreglumenn hafi farið utan í sumar til að ræða við konuna.
„Við náðum tali ef henni í gegnum annan aðila en það voru ekki lögreglumenn sem fóru út. Ég get ekki farið nánar út í það hver það var sem ræddi við konuna en það var aðili á vegum íslenska ríkisins,“ segir Tryggvi.
Hann segir á annan tug vitna hafa verið yfirheyrð í tengslum við málið og þá voru lífsýni úr fatnaði send í DNA-rannsókn.
Málið kom upp þann 17. september í fyrra en konan fannst snemma um morguninn úti á götu í Eyjum nakin og með mikla áverka á höfði. Maðurinn sem grunaður er í málinu sat í gæsluvarðhaldi í um tíu daga vegna þess.
Lífsýni úr fatnaði í nauðgunarmáli í Eyjum rannsökuð

Tengdar fréttir

Laus úr gæsluvarðhaldi
Héraðsdómur Suðurlands féllst ekki á kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um framlengingu gæsluvarðhalds yfir manni sem grunaður er um alvarlega líkamsárás og kynferðisbrot.

Vitni gátu ekki bent á árásarmanninn í Eyjum
Hæstiréttur hefur hafnað gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar

Líkamsárás í Vestmannaeyjum: Lögreglan vildi meta geðheilbrigði mannsins
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að ekki verði kallaður til dómkvaddur matsmaður til þess að framkvæma mat á manni sem meðal annars er grunaður er um alvarlega líkamsárás og kynferðisbrot gegn konu í Vestmannaeyjum 17. september síðastliðinn.