Menning

Draumurinn að halda áfram í óperusöng

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Rödd Brynhildar Þóru mun hljóma í Seltjarnarneskirkju í kvöld við meðleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur.
Rödd Brynhildar Þóru mun hljóma í Seltjarnarneskirkju í kvöld við meðleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur. Vísir/Eyþór
Brynhildur Þóra Þórsdóttir heldur sína fyrstu einsöngstónleika í Seltjarnarneskirkju í kvöld klukkan 20. Hún syngur verk eftir Strauss, Tsjajk­ovskí og Schubert og kveðst líka ætla að lauma tveimur rússneskum aríum inn. „Meðleikarinn minn síðasta vetur var rússnesk kona og það kom mér á óvart hvað bæði tónlist og textar frá Rússlandi fóru vel í mig, svo ég ætla að spreyta mig á rússneskunni,“ segir hún. Hún bætir við að Helga Bryndís Magnúsdóttir, meðleikari hennar núna, hafi verið til í slaginn og gaman sé að vinna með henni.

Söngur og tónlist hafa fylgt Brynhildi frá unga aldri. Hún spilaði á selló í Tónlistarskóla Kópavogs til tvítugs, var líka í kór Kársnesskóla sem barn, færði sig í Gradualekórinn og lauk námi frá Söngskólanum í Reykjavík um leið og stúdentsprófi frá Kvennó. Eftir BA-nám í söng í Bandaríkjunum færði hún sig til Þýskalands og hefur stundað þar framhaldsnám sem hún stefnir á að ljúka næsta sumar. „Draumurinn er að halda áfram í óperusöng og fá einhvers staðar vinnu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×