Slóvenar unnu Finna 78-81 í lokaleik A-riðils á Evrópumótinu í körfubolta í dag. Með sigrinum fór Slóvenía á topp riðilsins með fjögur stig, eina liðið sem hefur unnið báða leiki sína á mótinu.
Goran Dragic var stigahæstur Slóvena með 29 stig og 4 fráköst. Næstur var Anthony Randolph með 10 stig og 6 fráköst.
Hjá Finnum var Lauri Markkanen atkvæðamestur með 24 stig og 7 fráköst.
Jafnt var eftir fyrsta leikhluta 22-22. Slóvenar náðu svo tíu stiga forskoti fyrir leikhlé, 42-52. Finnar komu til baka og náðu að minnka muninn niður í tvö stig fyrir síðasta leikhlutann. Þeir komust yfir 78-77 þegar 38 sekúndur voru eftir af leiknum, en Dragic fékk tvö vítaskot og kom Slóvenum aftur yfir og Randolph tryggði svo sigur Slóvena.
