Forsetinn mun taka stöðuna á hjálparstarfi bæði í Houston í Texas-ríki, sem fór einna verst út úr flóðum í kjölfar Harveys, og Louisiana-ríki. Forsetafrúin Melania Trump er með í för en í frétt breska dagblaðsins The Guardian eru aðstoðarmenn í Hvíta húsinu sagðir binda vonir við að í þetta skiptið verði heimsókn forsetans laus við öll glappaskot.
Í tístinu hér að neðan, sem birt var á Twitter-reikningi forsetans, má sjá Donald og Melaniu Trump stíga út úr flugvél sinni í Houston í dag.
TEXAS: We are with you today, we are with you tomorrow, and we will be with you EVERY SINGLE DAY AFTER, to restore, recover, and REBUILD! pic.twitter.com/p1Fh8jmmFA
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 2, 2017
Í gær sendi Trump Bandaríkjaþingi beiðni um 14,5 milljarða Bandaríkjadala í neyðaraðstoð svo hægt sé að hefja uppbyggingu í kjölfar eyðileggingarinnar í Texas og Louisiana. 7,8 milljarðar af þeirri upphæð, eða um 822 milljarðar íslenskra króna, verða leystir út til hjálparstarfs á næstu dögum en restin í lok mánaðar.
Talið er að minnst 47 manns séu látnir vegna Harveys og þá dvelja 43 þúsund manns í neyðarskýlum. Einhverjir hafa fengið að snúa aftur til síns heima en enn eru mikil flóð á nokkrum svæðum.