Erlent

Sprenging í lestarkerfi London

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Parsons Green lestarstöðinni.
Frá Parsons Green lestarstöðinni. Vísir/AFP
Uppfært 11:45

Sprenging varð í Parsons Green lestarstöðinni í London í morgun. Enginn dó í árásinni en 18 eru særðir og slasaðir. Enginn af hinum slösuðu er í lífshættu. Lögreglan segir að um hryðjuverk sé að ræða en bitni segja mikinn eld hafa fylgt sprengingunni sem talin er hafa komið frá fötu sem komið hafði verið fyrir í lestinni á háannatíma.

Þá segir lögreglan ólíklegt að árásirnar verði fleiri.

Vitnin lýsa því að hafa heyrt sprengingu og að eldveggur hafi farið eftir lestinni. Einhverjir eru sagðir hafa slasast í troðningi um borð í lestinni.

Umfangsmikil leit stendur nú yfir að aðilanum sem kom sprengjunni fyrir, en hún er sögð hafa verið tímastillt.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í London barst útkall til þeirra klukkan 8:20 í morgun (7:20 hérna heima). Það var ekki fyrr en tveimur tímum seinna sem lögreglan sagði að um hryðjuverk væri að ræða.

Í heildina eru 18 særðir eða slasaðir og er enginn þeirra talinn í lífshættu.Vísir/GraphicNews
Sadiq Khan, borgarstjóri London, hefur fordæmt árásina og kallar eftir því að íbúar London sýni ró en haldi sér þó á tánum.

Þetta er fimmta hryðjuverkaárásin í London á þessu ári og sú fyrsta sem enginn deyr í. Alls hafa 36 látið lífið í hinum fjórum árásunum. Samkvæmt BBC segjast yfirvöld hafa komið í veg fyrir sex árásir.

Samkvæmt heimildum Guardian hafa sprengjusérfræðingar komist að því að einungis hluti sprengjunnar virkaði.

Lögreglan fer yfir upptökur úr öryggismyndavélum í lestakerfi London í leit að vísbendingum um hver kom sprengjunni fyrir. Mikilvægt þykir að sá finnist fljótt svo hann og mögulegir samverkamenn hafi ekki tíma til að reyna fleiri árásir. Þá er mikilvægt að komast að því hvar sprengjan var gerð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tíst um árásina þar sem hann segir að yfirvöld verði að grípa til „harðari“ aðgerða gegn hryðjuverkamönnum og takmarka verði aðgang þeirra að internetinu.

Myndband hefur gengið um netið sem sýnir logandi í lát um borð í lestinni, Vitni lýsir því sem hann sá.
Myndband af vettvangi og aðgerðum lögreglu og slökkviliðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×