Erlent

Fimm fórust á hjúkrunar­heimili í Flórída eftir Irmu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Irma olli miklu tjóni. Nordicphotos/AFP
Irma olli miklu tjóni. Nordicphotos/AFP
Fimm létust á hjúkrunar­heimili í Flórída í gær eftir að fellibylurinn Irma gekk þar yfir.

Hjúkrunarheimilið, sem er í Hollywood í Flórída, hefur verið rafmagnslaust dögum saman og var það rýmt í gær enda afar heitt þar inni þar sem loftræsting virkar ekki.

Tíu milljónir eru enn án rafmagns í Flórída, Georgíu og Suður- og Norður-Karólínu vegna Irmu en á þriðja tug fórust af völdum stormsins í Bandaríkjunum. Til viðbótar fórust á fjórða tug á eyjum Karíbahafsins vegna hamfaranna.

Irma gekk á land í Flórída á sunnudagsmorgun sem fjórða stigs fellibylur. Yfir landi veiktist stormurinn og var Irma orðin hitabeltisstormur á mánudag.

Fleiri eldri borgarar eru í hættu í Flórída en rafmagnslaust er í fimmtán þúsund manna samfélagi eldri borgara í Pembroke Pines. Eru sumir íbúanna fastir í herbergjum sínum þar sem lyftur virka ekki. Í gær var 32 stiga hiti í Pembroke Pines og vegna rafmagnsleysisins virkar loftræsting ekki á svæðinu svo hitinn verður hættulegur.

Amanda Conwell, talsmaður lögreglu í Pembroke Pines, sagði við Miami Herald í gær að lögregluþjónar vöktuðu nú svæðið. Íbúar væru í viðkvæmri stöðu og lögregla hefði talsverðar áhyggjur af velferð þeirra.

Betur fór þó í Flórída en á horfðist. Er það annars vegar vegna þess að Irma sveigði til vesturs og þurfti því að fara lengri leið yfir land áður en hún gekk yfir þéttbýliskjarna. Hins vegar hafði ríkið mikinn tíma til undirbúnings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×