Erlent

Íbúar Karíbahafseyja óttast um að vatns- og matarbirgðir klárist

Þórdís Valsdóttir skrifar
Íbúar eyja í Karíbahafi eru áhygjufullir yfir minnkandi birgðum af vatni og mat. Mikið af eyjunum eru í rúst.
Íbúar eyja í Karíbahafi eru áhygjufullir yfir minnkandi birgðum af vatni og mat. Mikið af eyjunum eru í rúst. Vísir/afp
Vika er liðin síðan fellibylurinn Irma reið yfir eyjar í Karíbahafi. Fjöldi íbúa eru án rafmagns og rennandi vatns og hafa miklar áhyggjur af framhaldinu.

Bæði íbúar og ferðamenn á eyjunum segja eftirköst Irmu krefjandi og að hver og einn þurfi að sjá sér farborða.

„Það er ekkert rennandi vatn og ekkert rafmagn. Nánast allt er eyðilagt,“ sagði Shelby Alfred, hjúkrunarfræðingur á eyjunni St. John, í viðtali við NBC news.

Alfred sagði einnig að Rauði Krossinn væri búinn að koma upp neyðarskýli fyrir fólk sem missti heimili sitt í fellibylnum.

„Það er engin loftkæling, ekkert vatn, einungis beddar sem liggja þétt við hvorn annan og fólk hrannast á þá, flestir sem hafa misst heimili sín.“

Á nágrannaeyjunni St. Thomas hafa íbúar áhyggjur af því að matur á eyjunni muni klárast áður en nýjar birgðir berast. Drykkjarvatn er af skornum skammti og einnig styttist í að birgðir af eldsneyti klárist.

Í það minnsta 54 létu lífið í Karíbahafinu og á Flórídaskaga í síðustu viku þegar Irma gekk þar yfir. Fellibylurinn var þegar hæst stóð flokkaður sem fimmta stigs fellibylur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×