Erlent

Auka við hjálparstarf í Karíbahafi eftir að hafa sætt gagnrýni fyrir að gera ekki nóg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, ræðir við litla stúlku á eyjunni Sankti Martin í Karíbahafi.
Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, ræðir við litla stúlku á eyjunni Sankti Martin í Karíbahafi. vísir/getty
Leiðtogar Evrópuríkjanna sem ráða yfir fjölda eyja í Karíbahafi sem urðu illa úti í fellibylnum Irmu eru nú á leið til eyjanna eða eru þegar komnir. Þeir heita að auka við hjálparstarf á eyjunum en það loforð kemur í kjölfarið á gagnrýni sem þeir hafa sætt fyrir að bregðast seint og illa við náttúruhamförunum.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kom á svæðið í dag og heimsækir frönsku eyjarnar í Karíbahafi en á eyjunum Sankti Barts og Sankti Martin týndu alls tíu manns lífi í fellibylnum. Macron sagði að verulega yrði bætt í hjálparstarf og björgunaraðgerðir. Fellibylurinn Irma væri fordæmalaus og þá hefði annar fellibylur, Jose, sem kom strax í kjölfarið, hamlað hjálparstarfi.

Macron hét því að sveigja reglur og verkferla ef þess þyrfti til þess að byggja eyjarnar upp á ný.

Bresk yfirvöld hafa jafnframt verið gagnrýnd vegna viðbragða sinna við Irmu en alls létust níu manns á breskum yfirráðasvæðum í Karíbahafinu. Von er á Boris Johnson, utanríkisráðherra, á svæðið síðar í vikunni. Þá hefur hollenski konungurinn, Willem Alexander, heimsótt hollensk yfirráðasvæði í dag.

„Ég hef séð afleiðingar stríðsátaka og náttúruhamfara áður en ég hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Það er sama hvert litið er, eyðileggingin blasir alls staðar við,“ sagði hollenski konungurinn við blaðamenn í dag.


Tengdar fréttir

Milljónir flúðu áður en Irma skall á

Fjórða stigs fellibylur skall á Flórída í Bandaríkjunum í gær eftir að hafa farið yfir Karíbahaf. Íbúi í Tampa segir við Fréttablaðið að fólk sitji fast því ekki sé hægt að fá bensín í ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×