Erlent

Frans páfi: Sagan mun dæma þá sem afneita loftslagsbreytingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi er ómyrkur í máli um þá sem hunsa ráðleggingar vísindamanna um loftslagsbreytingar á jörðinni.
Frans páfi er ómyrkur í máli um þá sem hunsa ráðleggingar vísindamanna um loftslagsbreytingar á jörðinni. Vísir/AFP
Nýlegir fellibyljir ættu að gera fólki ljóst að mannkynið mun sökkva ef það tekur ekki á loftslagsbreytingum, að sögn Frans páfa. Hann varar við því að sagan muni dæma þá sem hafna vísindalegri þekkingu á orsökum þeirra.

Þetta sagði páfi við blaðamenn í gær þegar hann ferðaðist frá Kólumbíu þar sem hann var í opinberri heimsókn. Hann var einarður stuðningsmaður Parísarsamkomulagsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum árið 2015.

„Ef við skiptum ekki um stefnu, munum við sökkva,“ sagði Frans þegar hann var spurður út í fellibylina Harvey og Irmu sem hafa verið sögulegir stormar, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Afleiðingar loftslagsbreytinga væru nú þegar greinilegar og vísindamenn hefðu lýst því til hvaða aðgerða þurfi að grípa

„Ef einhver efast um að það sé satt þá ættu þeir að spyrja vísindamenn. Þeir eru mjög afdráttarlausir. Þetta eru ekki skoðanir sem þeir mótuðu á staðnum. Þeir eru mjög afdráttarlausir. Svo þarf hver maður að ákveða sig og sagan mun dæma þá ákvörðun,“ sagði Frans páfi.

Þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í júní að hann hygðist draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu lýsti talsmaður Páfagarða ákvörðuninni sem „löðrungi“ í andlit páfa og Páfagarðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×