Menning

Rétta andrúmsloftið skapast í kapellunni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hægt er að ganga kringum verkið á gólfinu og líka njóta þess ofan af svölum.
Hægt er að ganga kringum verkið á gólfinu og líka njóta þess ofan af svölum. Mynd/Vigfús Birgisson
Kapella og kjallari St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, þar sem áður var beðist fyrir og lík voru lögð til, er nú vettvangur vídeólistar Sigurðar Guðjónssonar myndlistarmanns. Innljós nefnist sýningin hans sem samanstendur af þremur verkum, einu í kapellunni og tveimur niðri í kjallara.

„Þetta byrjaði með því að Listasafn ASÍ tók ákvörðun um að setja upp sýningar í ýmsum bæjum og Hafnarfjörður varð fyrst fyrir valinu. Við Elísabet Gunnarsdóttir, forstöðumaður safnsins, fórum í vettvangsferðir að skoða húsnæði og fannst kapellan strax hentugur staður fyrir það sem við ætluðum að gera,“ segir Sigurður og kveðst nýta aðstæðurnar á vissan hátt, til dæmis gólfið í kapellunni fyrir myndvörpun.

„Áhorfandinn getur gengið kringum verkið og upplifað það eins og skúlptúr. Líka farið upp á svalir og horft yfir. Öllum verkunum fylgja hljóð sem unnin eru út frá myndefninu og hljómburðurinn er mjög góður á staðnum þannig að rétta andrúmsloftið skapast í kapellunni.“





Sigurður hefur meðal annars sýnt í Berlín, New York, Lundúnum, Peking og Seúl. Mynd/Vigfús Birgisson
Spurður hvað hann sé að segja með sýningunni svarar Sigurður: „Það er undir hverjum og einum komið að skynja og sjá sitt út úr verkunum en hreyfing og tímaelementið eru lykilatriði. Ég er ekki að vinna með nein ákveðin skilaboð heldur snýst sýningin um marglaga upplifun og heildarvirkni. Því er betra að hafa góðan tíma til að fara á milli verkanna og dvelja við þau.“

St. Jósefsspítali er við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði. Sýningin Innljós er opin þar miðvikudaga til sunnudaga frá 12 til 17 fram í miðjan október og opnuð fyrir hópa utan reglulegs opnunartíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×