Þetta var megininntak yfirlýsingar Kims sem hann las upp í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu í gærkvöldi. Sérfræðingar telja að þetta sé fyrsta ræða sem leiðtogi Norður-Kóreu flytur með alþjóðasamfélagið í huga. Þar vísaði hann til óvenju herskárrar ræðu Trumps á þriðjudag þar sem Bandaríkjaforseti var harðorður í garð Norður-Kóreu.
Sjá einnig: Trump harðorður í garð Norður-Kóreu og Íran
Varaði hann ríkið við að ögra bandamönnum Bandaríkjanna. „Við munum eiga þann eina kost að gereyða Norður-Kóreu. Eldflaugamaðurinn (e. Rocketman) er í sjálfsmorðshugleiðingum fyrir sig og ríkisstjórn sína,“ sagði Trump og beindi orðum sínum að Kim Jong-un.
Leiðtogi Norður-Kóreu segir í yfirlýsingu sinni að ræða Trump hafi sannfært sig um að sú leið sem þjóð hans hefur valið sé sú rétta. Digurbarkaleg ræða Bandaríkjaforseta hafi ekki hrætt hann og muni hann fylgja kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu allt til enda.
Hér að neðan má sjá brot úr ræðu Trumps á þriðjudag.
Trump to the UN on Iran: "The Iranian government masks a corrupt dictatorship behind the false guise of democracy" https://t.co/w77yjbPOx9 pic.twitter.com/SjSjmUrmKP
— CNN Breaking News (@cnnbrk) September 19, 2017
Lauk Kim yfirlýsingu sinni á því að segja að vopnabúr hans muni ná að temja hinn elliæra og brjálaða Bandaríkjamann.
Sjá einnig: Trump geltandi hundur í augum Norður-Kóreu
Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Yong-ho, sagði í samtali við fjölmiðla í gær að þjóð hans muni halda áfram að þróa langdrægar eldflaugar og kjarnaodda, þrátt fyrir hertar viðskiptaþvinganir alþjóðasamfélagsins. „Það er málsháttur sem segir: Þó svo að hundurinn gelti heldur skrúðgangan áfram,“ sagði utanríkisráðherrann um fyrrnefnda ræðu Trumps.
„Ef hann [Trump] hélt að hann gæti látið okkur bregða með hundsgelti þá er hann að dreyma.“ Aðspurður um hvað honum þætti um að Trump hefði kallað Kim Jong-un Eldflaugamann svaraði ráðherrann. „Ég vorkenni aðstoðarmönnum hans.“
Ri Yong-ho mun halda ræðu á Allsherjarþinginu síðar í dag.